Erlent

Svíar prófa kynjaskipta bekki: Foreldrar og nemendur ekki sáttir

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. vísir/getty
Grunnskólinn Adolfsbergskolan í Svíþjóð hefur nú skipt börnum upp í bekki eftir kyni. Um tímabundna tilraun er að ræða en markmiðið með henni er meðal annars valdefling stúlkna. Sænski miðillinn The Local greinir frá þessu.

Tilraunin á að standa yfir í sex vikur og hófst þegar skóli var settur eftir áramót. Í kjölfarið sendu skólayfirvöld foreldrum barnanna bréf þar sem greint var frá því tilrauninni. Börnin eru í níunda bekk.

Anneli Widestrand, skólastjóri Adolfsbergskolan, sagði í samtali við fjölmiðla að reynsla sín hefði kennt sér að sumar stúlkur þyrðu ekki að láta í sér heyra í kennslustofunni þegar þær væru í blönduðum bekkjum.

„Ég tel að þetta sé góð leið til þess að brjótast út úr ákveðnu mynstri og ná til nemendanna,“ sagði hún.

Foreldrar og nemendur ósáttir

Samkvæmt sænskum fjölmiðlum eru nemendur skólans ekki ánægðir með þetta tímabundna fyrirkomulag. Foreldrar hafa jafnframt margir hverjir lýst yfir óánægju sinni.

„Fólk er óánægt og í uppnámi. Við höfum lýst yfir efasemdum okkar og nemendur skólans hafa meðal annars skrifað um þetta á Instagram. Við höfum vakið máls á þessu en þeir [skólayfirvöld] segja einfaldlega að sumum stúlkum þyki erfitt að halda fyrirlestra í návist drengja,“ sagði Beata Ejdeholt sem er nemandi í skólanum.

Frá árinu 1974 hafa engir sérstakir stúlkna- og drengjaskólar verið starfræktir í Svíþjóð. Bekkir í grunnskólum þar í landi eru yfirleitt blandaðir, ekki kynjaskiptir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×