Fótbolti

Svíar eru Evrópumeistarar eftir sigur í vítakeppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/AFP
Sænska 21 árs landsliðið í fótbolta tryggði sér í kvöld Evrópumeistaratitilinn eftir sigur í vítakeppni á móti Portúgal í úrslitaleik EM 21 árs landsliða í Tékklandi. Þetta er í fyrsta sinn sem Svíar vinna þennan titil og í fyrsta sinn sem Svíþjóð vinnur stórt alþjóðlegt mót í karlaflokki.

Patrik Carlgren, markvörður Svía, tryggði sínu liði titilinn með því að verja síðustu vítaspyrnu Portúgala sem William Carvalho tók. Þetta var annað vítið sem Carlgren varði í vítakeppninni.

William Carvalho hefur verið orðaður við Arsenal en fór algjörlega á taugum í vítinu sem var mjög slakt. Það var búist við sigri Portúgal fyrir leik enda vann liðið 5-0 stórsigur á Þýskalandi í undanúrslitum keppninnar.

Svíar skoruðu úr fjórum af fimm spyrnum sínum þar á meðal þeim þremur síðustu. Portúgalar klikkuðu á þriðju spyrnu sinni og svo þeirri síðustu. William Carvalho og Ricardo Esgaio létu báðir verja frá sér en hjá Svíum tókst Abdul Khalili ekki að skora úr sinni spyrnu.

Liðin gerðu 1-1 jafntefli í riðlakeppninni en þá nægði þau úrslit til að koma þeim báðum áfram í undanúrslitin. Ítalir voru ekki alveg sáttir með hvað liðin voru ánægð með stigið í þeim leik en ítalska liðið hefði komist áfram með sigri annars hvors liðsins.

Það var ekkert mark skorað í venjulegum leiktíma eða framlengingu þrátt fyrir margar góðar tilraunir hjá liðunum. Svíar fengu nokkur góð færi á lokakafla leiksins og í framlengingu en fram eftir leik voru Portúgalar sterkara liðið.

Englendingar komust ekki upp úr sínum riðli en þeir unnu engu að síður 1-0 sigur á Svíum þegar liðin mættust í riðlakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×