Fótbolti

Svíar blésu til veislu gegn Hvít-Rússum | Andorra nældi í stig í Færeyjum

Svíarnir þurfa þrjú stig.
Svíarnir þurfa þrjú stig. vísir/getty
Sænska landsliðið gekk frá Hvíta-Rússlandi 4-0 á Friends-Arena í Stokkhólmi í undankeppni HM 2018 í Rússlandi en með sigrinum fer sænska liðið um sinn í efsta sæti A-riðils en Holland og Frakkland geta bæði náð að komast yfir Svíþjóð seinna í kvöld.

Emil Forsberg kom Svíum yfir á 19. mínútu og bætti hann við öðru marki Svíþjóðar í upphafi seinni hálfleiks. Tíu mínútum síðar bætti Marcus Berg við þriðja marki Svía og gerði út um leikinn en Isaac Thelin bætti við fjórða marki Svía korteri fyrir leikslok.

Sigurinn þýðir að Svíar eru í toppsæti A-riðilsins á markatölu eftir fimm leiki en gera má ráð fyrir að Frakkland sem er jafnt Svíþjóð að stigum muni taka fram úr í kvöld þegar þeir mæta Lúxemborg.

Nágrannar okkar í Færeyjum misstigu sig heldur betur gegn Andorra á heimavelli í kvöld en leiknum lauk með markalausu jafntefli.

Var lið Andorra búið að leika 58 leiki í undankeppnum EM og HM án þess að næla í stig fyrir leik kvöldsins en síðasta stigið vannst í 0-0 jafntefli gegn Finnlandi á heimavelli.

Þá vann Bosnía öruggan 5-0 sigur á Gíbraltar og Sviss vann nauman 1-0 sigur á Lettlandi en Kýpur og Eistland skyldu jöfn 0-0 í Kýpur.

Úrslit dagsins:

Andorra 0-0 Færeyjar

Bosnía Hersegóvína 5-0 Gíbraltar

Kýpur 0-0 Eistland

Svíþjóð 4-0 Hvíta-Rússland

Sviss 1-0 Lettland




Fleiri fréttir

Sjá meira


×