Körfubolti

Sverrir Þór: Alveg sama þótt Williams skoraði

Ingvi Þór Sæmundsson í Laugardalshöll skrifar
Sverrir Þór gefur skipanir á hliðarlínunni.
Sverrir Þór gefur skipanir á hliðarlínunni. vísir/vilhelm
Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur, var að vonum sáttur með að vera kominn með sitt lið í úrslitaleik Maltbikarsins eftir sigur á Haukum.

„Við áttum fullt af góðum köflum sem við náðum ekki að fylgja eftir. Við hleyptum þeim alltaf aftur inn í leikinn. Þær börðust vel. Það tók langan tíma að komast á sporið,“ sagði Sverrir en Keflavík byrjaði leikinn ekki nógu vel.

„Við byrjuðum þetta illa og það var hálfgerður sofandaháttur í liðinu. Á meðan voru Haukarnir grimmari í alla bolta. En svo komu stelpur sterkar inn af bekknum og náðu að vekja hinar.“

Níu leikmenn Keflavíkur skoruðu í leiknum á meðan Nashika Williams skoraði rúman helming stiga Hauka. Sverrir hafði litlar áhyggjur þótt Williams skoraði hverja körfuna á fætur annarri.

„Ég var ekkert að hafa áhyggjur af því að hún gerði þetta alltaf sjálf. Ég vildi ekki leggja sérstaka áherslu á að stoppa hana. Hún mátti alveg skora á meðan við stoppuðum hinar. Þetta hefði orðið erfiðara ef við hefðum hleypt hinum inn í leikinn,“ sagði Sverrir.

Keflavík vann frákastabaráttuna með 15 eftir að hafa skíttapað henni í deildarleik liðanna á dögunum.

„Það skipti máli. Öll barátta skiptir máli. Hún var ekki til staðar í 1. leikhluta en lagaðist eftir því sem leið á,“ sagði Sverrir sem ætlar að njóta þess að horfa á seinni undanúrslitaleikinn þar sem Snæfell og Skallagrímur eigast við.

„Mér er alveg sama hvort liðið við fáum. Þau eru ólík. Ég ætla bara að horfa afslappaður á körfuboltaleik og njóta þess að við séum komin í úrslit. Seint í kvöld hefst svo undirbúningurinn hjá okkur þjálfurunum fyrir laugardaginn,“ sagði Sverrir að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×