Handbolti

Sverre: Gummi er örugglega haugstressaður

Arnar Björnsson í Doha skrifar
Líf „strákanna okkar“ snýst auðvitað um handbolta. Þeir geta ekki slappað mikið af eftir hvern leik því þá tekur við undirbúningur fyrir þann næsta. Fyrir utan að vera í íþróttasalnum eru þeir mestanpart á hótelinu, annað hvort að hvílast eða á fundum þar sem pælt er í leikaðferð næsta mótherja.

Hótellifið getur verið þreytandi en í morgun fór hópurinn í eyðimörkina og brunaði þar um á fjórhjólum. Varnarjaxlinn Sverre Jakobsson tók vel á því eins og reyndar í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur.

„Þetta var hrikalega gaman að leika sér í 30 mínútur á fjórhjóli í eyðimörk, það er margt leiðinlegra en það“.

En er ekki skemmtilegra að standa í vörninni og þukla á mótherjunum og lemja aðeins á þeim?

„Jú en þetta er frídagur og maður á að nýta hann í eitthvað annað. Við ætlum að vinna Danina, þú færð ekkert annað út úr mér. Að sjálfsögðu er hægt að vinna Danina. Við erum nýbúnir að spila við og nú er bara að búa til áætlun um það hvernig við vinnum leikinn. Við þurfum einnig að búa okkur andlega undir stóran og mikinn bikarleik“.

Guðmundur Guðmundsson fór ekki að sofa fyrr en klukkan 4 í nótt, hann þekkir ykkur auðvitað betur en margir aðrir.

„Við vitum alveg hvernig Gummi vinnur. Hann er örugglega haugstressaður og af því að Íslendingar eru mótherjar hans að þá er leikurinn svolítið sérstakur fyrir hann. Við höfum ekki áhyggjur af Gumma eða Dönunum, við þurfum bara að huga að okkur sjálfum“.

Er eitthvað öðru vísi að spila við Dani en aðrar þjóðir?

„Nei í rauninni ekki en við höfum bara spilað oft við þá á síðustu árum á stórmótum og því farnir að þekkja leikmenn þeirra vel og þeir okkur. Það er hluti af því þegar við förum á stórmót að spila við Dani“.

Þið lékuð illa á móti Tékkum en vel í næsta leik gegn Egyptum, hvað bjóðið þið uppá á morgun?

„Góðan leik, við þurfum að spila góða vörn sem við gerðum ekki í Tékkaleiknum, þá gerum við hlutina kannski auðveldari fyrir sóknarmennina sem þurfa ekki að skora í hverri einustu sókn. Þá kemur markvarslan og auðveldu mörkin úr hraðaupphlaupunum. Þetta er sama uppskriftin og í raun alltaf. Varnarleikurinn gekk mun betur gegn Egyptunum og við náðum að leysa vandamálin fyrr en á móti Tékkunum.

Þú ert enginn unglingur ennþá, hvernig er skrokkurinn?

„Maður er rétt að detta í 38 ára afmælið, tvær vikur í það. Þetta tekur í en við fáum frídag á milli og erum með tvo sjúkraþjálfara. Ég hef ekki áhyggjur af sjálfum mér og vona að aðrir hafi ekki áhyggjur af mér“.

Er hægt að líma svona gamlan skrokk saman?

„Já þetta er svo mikið í hausnum. Ég leyfi öðrum að hafa áhyggjur af sjálfum mér, ég hef þær alla vega ekki“.

Þú varst rekinn útaf gegn Egyptunum í gær og það fauk í þig?

„Maður er ennþá að laga sig að áherslum dómaranna. Mér finnst að dómararnir mættu skilja leikinn aðeins betur.  Maður verður að reiðast stundum til að koma sér í rétta gírinn“. 

Viðtalið í heild sinni má sjá hér að ofan.                         


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×