Handbolti

Sverre: Búum okkur ekki til afsakanir fyrirfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Eva Björk
„Við erum særðir. Það er ekki nokkur spurning og við erum ekki að reyna að fela að það sem við buðum upp á í gær var okkur ekki sæmandi,“ sagði Sverre en viðtalið má heyra í heild sinni hér efst í fréttinni.

„Maður reynir að hugsa um það sem fór úrskeðis en það er ekki mikið um svör. Við verðum að kryfja þennan leik aðeins í dag og átta okkur á því hvernig við komum inn í leikinn.“

Ísland mætir Egyptalandi á morgun en strákarnir þurfa að vinna þann leik til að komast áfram í 16-liða úrslit keppninnar. Sverre segist líta á þann leik eins og leik í útsláttarkeppninni.

„Nú förum við bara aðeins fyrr í bikarkeppnina en við ætluðum okkur. Egyptaland er flottur og verðugur andstæðingur en við verðum einfaldlega að koma með réttu svörin.“

Sverre segir að það hafi ekkert í leik Tékklands komið liðinu á óvart. „Við vorum bara svo óöruggir í öllum stöðum og á öllum sviðum handboltans. Það vatt upp á sig og þessi fyrri hálfleikur var hreinasta hörmung.“

„Í raun á að vera sama hvaða liði við mætum næst eftir svona útreið. Ef við ætlum að sýna einhver svör og vonandi okkar rétta andlit þá á það ekki skipta máli hvaða liði við mætum.“

Aron Pálmarsson verður ekki með á morgun en Sverre segir að það verði bara að takast á við það. „Við getum ekki farið á völlinn með tilbúna afsökun. Þá verður þetta bara erfiðara og það gengur bara ekki. Við erum með flotta leikmenn eins og Gunnar Stein Jónsson sem kemur væntanlega inn í staðinn fyrir Aron. Við hinir þurfum allir að standa þétt saman og sýna flotta liðsheild.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×