Innlent

Sveitarstjórnarmenn ósáttir við hugmyndir iðnaðarráðherra

Sveinn Arnarsson skrifar
Breytingar á raforkulögum fara illa í sveitarstjórnarmenn
Breytingar á raforkulögum fara illa í sveitarstjórnarmenn
Nokkurrar óánægju gætir meðal sveitarstjórnarmanna á landinu með hugmyndir iðnaðarráðherra um ný raforkulög sem takmarka skipulagsvald sveitarfélaga. Í frumvarpinu verður með ýtarlegum hætti kveðið á um hvernig standa skuli að gerð áætlunar um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Ágreiningurinn snýr aðallega að c-lið níundu greinar sem segir að sveitarfélögum beri að endurskoða aðalskipulag eigi síðar en innan fjögurra ára frá samþykktri kerfisáætlun og samræma skipulag vegna verkefna. Einnig ber sveitarfélögum að tryggja að skipulagsmál hindri ekki framgang þeirra verkefna sem eru á staðfestri þriggja ára áætlun.



Bergur Álfþórsson formaður bæjarráðs Voga
Bergur Álfþórsson er formaður bæjarráðs sveitarfélagsins Voga. Sveitarfélagið Vogar hefur staðið í ströngu vegna hugmynda um lagningu háspennulína í sveitarfélaginu vegna hugsanlegrar atvinnuuppbyggingar í Helguvík. „Það er morgunljóst að sérhver sveitarstjórnarmaður getur ekki verið ánægður ef skipulagsvaldið er af honum tekið eða sett undir einhverjar stofnanir úti í bæ. Sveitarfélögin hljóta að stýra því hvernig þau skipuleggja eða framkvæma í sínu landi,“ segir Bergur. 





guðmundur baldvin guðmundsson formaður bæjarráðs Akureyrar
Ný Blöndulína hefur verið á teikniborðinu lengi og hefur forstjóri Landsnets sagt sveitarfélögin hafa dregið lappirnar í skipulagsvinnu sinni. 

Guðmundur Baldvin Guðmundsson er formaður bæjarráðs Akureyrar. Hann tekur í sama streng og Bergur. „Við erum aðeins byrjaðir að horfa á þetta. Fljótt á litið er verið að færa valdið frá sveitarfélögunum, við getum horft á þetta þannig. Það er mjög mikilvægt að minni sveitarfélögin átti sig einnig á þessum breytingum. 

Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðaráðs Skagafjarðar, telur ríkisvaldið vera komið inn á varhugaverðar brautir. „Það hefur verið vilji okkar að skipulagsvaldið sé í höndum sveitarfélaga og það hefur ekkert breyst. Mér finnst þetta við fyrstu sýn vera svolítið skrýtið og vega að skipulagsvaldinu.“ Stefán Vagn veltir vöngum um hvort þessi lagasetning geti haft fordæmisgildi gagnvart öðrum sviðum grunnkerfisins. „Megum við eiga von á því að þetta geti haft þau áhrif að aðrir þættir er varða skipulagsvald sveitarfélaganna séu einnig í hættu?“ 


Tengdar fréttir

Minni völd í héraði með nýjum lögum

Frumvarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra mun takmarka skipulagsvald sveitarfélaga. Sveitarfélögum er gert skylt að setja nýjar raflínur á skipulag hjá sér ef framkvæmdir hafa verið samþykktar hjá Orkustofnun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×