Innlent

Sveitarstjóri heldur 2,8 milljóna bílastyrk

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Sveitarstjórinn á Hellu fær 2,8 milljónir á ári í aksturspeninga "óháð því hvort um sé að ræða raunverulegan akstur“, eins og fulltrúar minnihlutans í hreppsnefnd segja.
Sveitarstjórinn á Hellu fær 2,8 milljónir á ári í aksturspeninga "óháð því hvort um sé að ræða raunverulegan akstur“, eins og fulltrúar minnihlutans í hreppsnefnd segja. Fréttablaðið/GVA
Meirihluti sjálfstæðismanna í hreppsnefnd Rangárþings ytra felldi á dögunum tillögu minnihluta Á-listans um að spara 2,2 milljónir á aksturspeningum sveitarstjórans.

Tillaga frá Á-lista snerist um að breyta aksturskjörum sveitarstjóra frá því sem samþykkt var af meirihlutanum í upphafi nýs kjörtímabils síðastliðið vor.

„Sveitarstjóri nýti bifreið skrifstofu og/eða fái greitt eftir akstursdagbók í rökstuddum undantekningartilvikum eins og tíðkast yfirleitt í svona starfi. Sú fjárhæð sem sparast verði nýtt til uppbyggingar leikvalla í sveitarfélaginu,“ sagði í tillögunni.

Í greinargerð með tillögunni kom fram að sveitarstjóri fær 232 þúsund krónur í aksturspeninga á mánuði, samtals um 2,8 milljónir á ári, „óháð því hvort um sé að ræða raunverulegan akstur eða ekki.“ Lagt væri til að sveitarstjóri nýti bíl skrifstofu sveitarfélagsins við dagleg störf líkt og áður hafi verið gert og ákveðið hafi verið í nágrannasveitarfélaginu Rangárþingi eystra. Ef sveitarstjóri teldi ástæðu til að nýta eigin bíl við störf væri greitt eftir akstursdagbók. Kostnaður vegna bíls sveitarfélagsins væri áætlaður 550 þúsund krónur á ári á móti fyrrnefndum 2,8 milljónum. Hagræðingin yrði því um 2,2 milljónir á ári.

„Kjör sveitarstjóra eiga ávallt að vera til skoðunar eins og aðrir kostnaðarliðir sveitarfélagsins. En þar sem sveitarstjóri er nýlega ráðinn til starfa telur D-listinn ekki rétt að breyta ráðningarkjörunum á þessari stundu,“ bókuðu fulltrúar meirihlutans og felldu tillöguna.

Fulltrúar Á-lista sögðust „harma að meirihluti sveitarstjórnar sé því mótfallinn að hagræða í rekstri sveitarfélagsins á þennan hátt, sérstaklega þegar svo augljós sparnaður blasir við“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×