Innlent

Sveitarfélögin bíða dauða meðeigenda sinna í EBÍ

Gaeðar Örn Úlfarsson skrifar
Þegar fólk sem á hlut í EBÍ deyr rennur hlutur þeirra til sveitarfélaga sem eiga í félaginu.
Þegar fólk sem á hlut í EBÍ deyr rennur hlutur þeirra til sveitarfélaga sem eiga í félaginu. Fréttablaðið/GVA
Bæjarráð Kópavogs telur ávöxtunarmöguleika Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélag Íslands (EBÍ) svo takmarkaða að óskað var greinargerðar um möguleika þess að leysa félagið upp og greiða út eignarhluti.

„Það væri ekki skynsamlegt á þessum tímapunkti,“ segir Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri EBÍ, sem ræður frá slitum á félaginu í bréfi til Kópavogsbæjar.

Brunabótafélaginu var með lögum breytt í eignarhaldsfélag á árinu 1994. Frá þeim tíma hafa fulltrúar sveitarfélaga sem eiga hlut í félaginu farið með völdin.

Samkvæmt lögunum eignast sameignarsjóðurinn hluti einstaklinga í EBÍ þegar þeir falla frá. Sömuleiðis rennur í sameignarsjóðinn hlutur félags sem hættir að vera skráð sem lögaðili. Sveitarfélögin eignast sameignarsjóðinn.

Árið 1994 var hlutdeild sameignarsjóðsins 7,2 prósent. Fyrir tólf árum var skiptingin þannig að einstaklingar áttu 50 prósent í EBÍ, lögaðilar 29 prósent og sameignarsjóðurinn 21 prósent.

Um síðustu áramót hafði sameignarsjóðurinn hins vegar aukist í 33,5 prósent en hlutur lögaðila minnkað í 23,4 prósent og hlutur einstaklinga var 43,1 prósent.

Í svari Önnu Sigurðardóttur til Kópavogsbæjar er þannig bent á að hlutur sameignarsjóðsins vaxi í áranna rás. Eignarrétturinn sé óvirkur en verði virkur við slit félagsins.

„Lykilatriðið hér er að sameignarsjóðurinn verður eign aðildarsveitarfélaganna við hugsanleg slit og því skiptir öllu máli fyrir sveitarfélögin að hlutdeild sameignarsjóðsins verði orðin umtalsverð áður en til slita á félaginu kemur,“ segir í greinargerð Önnu.

Þá kemur fram að eignir EBÍ séu nú um þrír milljarðar króna. Væri félaginu slitið þyrfti það að greiða út um einn milljarð vegna lífeyrisskuldbindinga og einstaklingar og fyrirtæki myndu eiga um 1,3 milljarða. Í hlut sveitarfélaganna kæmu 670 milljónir.

„Í hnotskurn má því segja að sveitarfélögin standi frammi fyrir tveimur valkostum. Annars vegar sá að fá lítið strax, það er þessar 670 milljónir, eða horfa til lengri tíma, ávaxta eignina og halda áfram ágóðahlutagreiðslum til sveitarfélaganna á meðan hlutdeild sameignarsjóðsins hækkar og lífeyrisskuldbindingin lækkar,“ undirstrikar framkvæmdastjórinn.

Fram kemur að árleg útgreiðsla EBÍ til eigenda hafi verið 222 milljónir króna að meðaltali á fjórtán ára tímabili. „Þessi árangur hefur náðst þrátt fyrir að hér hafi orðið algjört hrun á fjármálamarkaði,“ segir Anna Sigurðardóttir í skýringum sínum til Kópavogsbæjar.

Á meðan sveitarfélögin sem stjórna EBÍ ákveða að slíta ekki félaginu minnkar hlutur einstaklinganna eftir því sem þeir falla frá. Í dag er hlutur þeirra í hreinni eign EBÍ yfir 800 milljónir króna sem, eftir því sem tíminn líður, færast í hendur sveitarfélaganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×