Innlent

Sveinbjörg Birna segist engar reglur hafa brotið og snýr aftur

Jakob Bjarnar skrifar
Sveinbjörg Birna tók sér hlé vegna Panamaskjala en er nú snúin til baka á ný.
Sveinbjörg Birna tók sér hlé vegna Panamaskjala en er nú snúin til baka á ný.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir hefur nú tilkynnt að hún ætli sér að snúa aftur í borgarstjórn Reykjavíkur.

Sveinbjörg Birna, sem er oddviti Framsóknarmanna í Reykjavíkurborg, óskaði eftir tímabundnu leyfi frá störfum sínum, meðan yfirferð á hagsmunaskráningu borgarfulltrúa stóð.

Hlé vegna Panamaskjalanna

Nafn Sveinbjargar Birnu er eitt þeirra nafna sem skráð er í Panama-skjölunum svonefndu; hún er skráð fyrir tveimur félögum í umsjá panamísku lögfræðistofunnar Mossack Fonseca; 7Callinvest sem skráð er á Tortóla og Ice 1 Corp sem var skráð á Panama. Í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í kjölfar þess að það komst sagði að hún teldi nauðsynlegt að víkja svo „borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallavina geti áfram veitt meirihluta borgarstjórnar nauðsynlegt aðald.“

En, nú virðist tekið að fenna í sporin og nú liggur niðurstaðan fyrir. „Í úttekt innri endurskoðanda og regluvarðar er staðfest að mér hafi ekki borið að skrá aflandsfélög sem ég tengdist á árunum 2007-9 á skrá um fjárhagslega hagsmuni borgarfulltrúa eða innherjaskrá, enda hafi þau verið afskráð á árinu 2009-10. Á árunum 2009-10 var ég með lögheimili og skattalegt heimilisfesti í Luxembourg,“ segir Sveinbjörg Birna í yfirlýsingu og boðar komu sína á ný.

Grófu undan tiltrú almennings

Í yfirlýsingunni segir jafnframt:

„Í úttekt innri endurskoðanda og regluvarðar kemur fram að á árinu 2014 hafi ég í samræmi við ákvæði laga um verðbréfaviðskipti tilkynnt regluverði um þrjú nánar tiltekin einkahlutafélög sem fjárhagslega tengda aðila. Aftur á móti hafi mér jafnframt borið að tilkynna um tengsl mín við umrædd félög á skrá þeirri sem skrifstofa borgarstjórnar heldur um fjárhagslega hagsmuni.“

Júlíus Vífill Ingvarssonar sagði sig frá borgarfulltrúastöðu sinni en hann og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir „sýndu litla borgaralega ábyrgðakennd og grófu undan tiltrú almennings á kjörnum fulltrúum í Panamamálinu svokallaða,“ sagði í harðorðri niðurstöðu siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna málsins.


Tengdar fréttir

Gagnrýnir niðurstöðu siðanefndar

Borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina gagnrýnir niðurstöðu siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga varðandi aflandsfélög. Hún segir að í niðurstöðunni sé vegið harkalega að Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur oddvita flokksins. Sveinbjörg óskaði í dag eftir áframhaldandi leyfi frá störfum vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×