Viðskipti erlent

Svefnleysi kostar hagkerfið milljarða

Sæunn Gísladóttir skrifar
Þúsundir vinnudaga tapast á ári sökum svefnleysis.
Þúsundir vinnudaga tapast á ári sökum svefnleysis. NordicPhotos/Getty
Breska hagkerfið tapar 40 milljörðum punda, jafnvirði 5.600 milljarða króna, árlega vegna þess að starfsmenn þjást af svefnleysi. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn frá Rand Europe.

BBC greinir frá því að útreikningar byggist á því að þreyttir starfsmenn séu annaðhvort afkastaminni eða taki sér veikindadag. Um 1,86 prósent af hagvexti tapist vegna svefnleysis.

Einnig kemur fram í rannsókninni að þeir sem sofa undir sex tímum á hverri nóttu séu 13 prósent líklegri til að deyja á undan þeim sem sofa sjö til níu tíma.

Rannsóknin náði til Bretlands, Bandaríkjanna, Kanada, Þýskalands og Japans. Niðurstöðurnar voru jákvæðari í Bretlandi en í Japan þar sem starfsmenn missa af flestum vinnudögum sökum svefnleysis. Bretar missa af 200 þúsund vinnudögum árlega vegna svefnleysis en í Bandaríkjunum eru það 1,2 milljónir vinnudaga og í Japan 600 þúsund.

Skýrsluhöfundar biðla til atvinnurekenda að átta sig á umfangi vandans og hvetja starfsmenn til að ná nægum svefni, sem og að útbúa herbergi þar sem starfsmenn geti lagt sig. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×