Erlent

Svefnbærinn í Kasakstan: Íbúar sofna óvænt og vakna nokkrum dögum síðar

Atli Ísleifsson skrifar
Faraldurinn hefur bitnað á nánast öllum fjölskyldum í bænum.
Faraldurinn hefur bitnað á nánast öllum fjölskyldum í bænum. Mynd/RT
Tíundi hver bæjarbúi í kasakska bænum Kalachi þjáist nú af undarlegum og óþekktum heilasjúkdómi sem veldur því að þeir sofna skyndilega, oft um miðjan dag. Sumir hafa sofnað og ekki vaknað fyrr en að nokkrum dögum liðnum.

Vísindamenn hafa um nokkurt skeið reynt að komast að hvað veldur en án árangurs. Sex hundruð af íbúum bæjarins hafa „smitast“ á síðustu tveimur árum.

Russia Today sýndi nýlega heimildarmynd þar sem sagt er frá „svefnfaraldrinum“, en læknar sem hafa rannsakað málið hafa ekki fundið neina lækningu við sjúkdómnum.

Faraldurinn hefur bitnað á nánast öllum fjölskyldum í bænum. Í myndinni segir frá því að nýlega hafi hvert skólabarnið á fætur öðrum óvænt sofnað á fyrsta degi skólans í september síðastliðinn. Nemandi við skólann minnist þess að átta börn hafi sofnað á innan við klukkustund þennan fyrsta dag skólaársins.

Þá segir frá því að í vetur hafi sextíu manns sofnað á sama tíma og segir sjúkraflutningamaður að þeir hafi lagt sjúklingana í raðir.

Margir telja að ástandið megi rekja til agna sem berast með vindi úr nálægri úrannámu sem grafin var á Sovéttímanum. Námunni var lokað fyrir tveimur áratugum síðan.

Sjá má heimildarmyndina hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×