Innlent

Svandís um söluna á Reitum: „Brunaútsala undir pólitískri tímapressu?“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Svandís Svavarsdóttir.
Svandís Svavarsdóttir. vísir/daníel
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, gagnrýndi sölu ríkisins á 6,38 prósenta hlut í Reitum fasteignafélagi í ræðu á Alþingi í dag.

Í gær var tilkynnt um útboð á hlutum ríkisins en söluverðið nam 3,9 milljörðum króna. Gengið verður frá viðskiptunum á morgun.

„Salan er ekki laus við að vekja spurningar. Í ljósi fyrri mála, Borgunarmálsins sérstaklega, og þverrandi umboðs ríkisstjórnarinnar, er rétt að spyrja spurninga um það hvort hér sé ekki farið of geyst í söluna á þessum eignum. Af hverju liggur svona á? Hvers vegna þurfti að selja allan hlutinn í fasteignafélaginu í hvelli meðan spáð er hækkun á fasteignaverði fram í tímann?“ sagði Svandís í liðnum störf þingsins.

Að mati þingmannsins var söluferlið undarlega lokað. Hún benti á að það væri mikið í húfi að ferlið í slíkum málum væri hafið yfir allan vafa og allt væri upp á borðum.

„Tortryggnin er raunveruleg og hún er á rökum reist. Fjármálaráðherra hlýtur að þurfa að svara því hvort til standi að ljúka við sölu þessara eigna í hálflokuðu ferli. Er hagsmunum ríkissjóðs borgið með þessu móti? Er verið að selja á hæsta mögulega verði eða er verið að flýta aðgerðum í skjóli nætur í aðdraganda kosninga? Er um að ræða brunaútsölu undir pólitískri tímapressu? Þessum spurningum þarf að svara.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×