Golf

Suwannapura vann eftir bráðabana

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Suwannapura nældi í sinn fyrsta sigur í Ohio
Suwannapura nældi í sinn fyrsta sigur í Ohio vísir/getty
Hin tælenska Thidapa Suwannapura vann sitt fyrsta mót á LPGA mótaröðinni þegar hún hafði betur í bráðabana á Marathon Classic mótinu í Ohio-fylki í Bandaríkjunum.

Suwannapura hafði aðeins tvisvar á ferlinum náð inn á topp 10 fyrir mótið um helgina en hún var nýliði á LPGA mótaröðinni árið 2012. Hún hafði betur í bráðabana við Brittany Lincicome í kvöld.

Suwannapura byrjaði lokadag mótsins jöfn í fimmta sæti en hún spilaði frábærlega á lokahringnum og endaði á sex höggum undir pari í dag, samtals á 14 höggum undir pari í mótinu líkt og hin bandaríska Lincicome.

Það þurfti aðeins eina holu í bráðabananum því Lincicome hitti fyrsta höggi sínu í glompu og það annað fór í vatn á meðan Suwannapura átti færi á erni rétt fyrir utan flötina. Hún hitti arnarpúttinu ekki en púttaði auðveldlega fyrir fugli á meðan Lincicome endaði holuna á pari.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir endaði jöfn í 56. sæti mótsins. Næsta mót á mótaröðinni er opna skoska mótið sem fer fram dagana 26.- 29. júlí og er Ólafía á meðal keppenda á mótinu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×