Innlent

Súrt regn og snjór á Vatnajökli mengaður áli

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Mikið af súru regni féll á landinu í eldgosinu í Holuhrauni og snjór nálægt eldstöðvunum á Vatnajökli er mengaður áli. Vísindamaður við Háskóla Íslands segir enn óljóst hver áhrifin verði á gróður og dýralíf. Íslendingar geti þakkað vondu veðri í vetur sem veitt hafi vissa vernd fyrir skaðlegum áhrifum gossins. 

Eldgosið í Holuhrauni varði í sex mánuði, frá frá 31. ágúst 2014 til 27. febrúar 2015 og allan þann tíma rigndi súru regni á landinu vegna brennisteinsmengunar. Lægstu gildin mældust á Höfn á Hornafirði þar sem rigningin varð gallsúr.



„Alveg frá upphafi til loka gossins þá er að falla súrt regn öðru hvoru á Íslandi og til dæmis var fylgst vel með þessu á Höfn á Hornafirði á veðurathugunarstöðinni þar. Það var viðvarandi súrt regn þar eftir að Veðurstofan og Jarðvísindastofnun byrja mælingar þar á úrkomu. Það er oft gallsúrt regn sem féll þar, lægsta ph magn sem þau mældu var 3.2.“

Í Holuhrauni snjóaði líka súrum snjó, þá mældu vísindamenn háan styrk málma í snjó, svo sem ál,  í Vatnajökli og í kringum eldstöðvarnar og hafa áhyggjur af umhverfisáhrifum vegna hans. „Við höfum verið að rannsaka snjó, bæði á meðan á gosi stóð og uppi á eldstöðvunum. Það féll gallsúr snjór þar. Það eru málmsölt sem koma upp með gasinu, þau eru vatnsleysanleg. Það eru málmsölt eins og ál. Ál í vatnslausn getur verið mjög hættulegt eiturefni og getur til dæmis drepið fisk á ám og vötnum.

Þegar súra regnið var hvað mest í Skandinavíu á sjöunda og áttunda áratugnum. Þá var það álið sem drap fiskinn.“

Sigurður Reynir og fleiri vísindamenn höfðu miklar áhyggjur af mengun vegna áls í snjó því þegar snjóa leysti en sviptingar í vorveðrinu gerðu það að verkum að áhrifanna hefur gætt í minna mæli. Enn er þó óljóst hver áhrif verða á gróður.

„Þetta leiðindaveður sem við höfðum var okkur til mikils happs. Það var frost og þíða til skiptis. Þá jafnóðum skolaðist mengunin út og henni var dælt út í vötnin. Doktorsnemar mínar og nýdoktarar hafa verið að koma fyrir svokölluðum lífhimnusöfnurum í dragám í Austurlandi og við Jökulsá á Fjöllum, þar fáum við upplýsingar um meðalefnasamsetningu á hverjum degi. Það sem við sjáum er að þetta virðist hafa lukkast vel. Við myndum vita það nú þegar ef þetta hefði farið illa því seiði og fiskur hefði flotið dauður upp. Hins vegar er ekki eins ljóst hvaða áhrif þetta hefur á gróður. Það á eftir að koma í ljós. Svo sjáum við hvernig fóðrið verður í sumar af túnum þar sem veruleg mengun var.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×