Innlent

Sunnan stormur og asahláka í kortunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það er vissara að hreinsa frá niðurföllum í dag áður en asahlákan skellur á á morgun.
Það er vissara að hreinsa frá niðurföllum í dag áður en asahlákan skellur á á morgun. vísir/eyþór
Veðurstofan hefur sent frá sér tilkynningu vegna veðurspárinnar fyrir morgundaginn en þá er búist við sunnan stormi eða rokið með talsverðri rigningu og asahláku.

Það mun hvessa í fyrramálið og er spáð sunnan 18 til 25 metrum á sekúndu um hádegisbil á morgun en 20 til 28 metrum á sekúndu um landið norðvestanvert. Einnig má búast við mjög hvössum vindstrengjum við fjöll, einkum norðvestan til. Þá verður talsverð rigning um landið sunnan-og vestanvert en úrkomulítið norðaustanlands.

Þá hlýnar ört og er spáð 5 til 12 stiga hita síðdegis. Því má búast við asahláku í flestum landshlutum og er fólk því hvatt til að hreinsa frá niðurföllum til að forðast vatnstjón. Einnig má búast við talsverðum vatnavöxtum í ám sunnan og vestan til á landinu.

Það snýst svo í hægari suðvestanátt annað kvöld með skúrum og síðar éljum og kólnandi veðri, fyrst vestan til. Spáin á miðvikudag hljóðar svo upp á suðvestan storm og éljagang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×