Lífið

Sunna tekur lagið með Tommy Genesis

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Sunna Ben mun snúa plötum fyrir Tommy Genesis á Sónar.
Sunna Ben mun snúa plötum fyrir Tommy Genesis á Sónar. Vísir/Eyþór
Sunna Ben hefur verið plötusnúður fyrir allar helstu rapphljómsveitirnar á landinu, hún er til að mynda meðlimur Reykjavíkurdætra þar sem hún er iðulega við spilarana á tónleikum þeirra auk þess að hafa spilað mjög reglulega fyrir dansi á öllum helstu börum bæjarins.

Tónlistarkonan Tommy Genesis hefur verið að gera það gott í „underground“ rappi, hún gefur út tónlist á vegum Awful Records sem er stórt nafn í þeim geira rappsins og hefur verið að túra um Evrópu og Bandaríkin síðustu misseri. Tónlist hennar er ekkert ólík því sem Reykjavíkurdætur hafa verið að kokka upp og því hefur verið ansi auðvelt val fyrir aðstandendur Sónar-hátíðarinnar að velja Sunnu þegar Tommy Genesis bað um íslenskan dj til að spila undir á tónleikum hennar.

„Ég er megapepp! Kúl að spila með nýjum töffara og sérstaklega kúl að fá að spila með listamanninum sem ég var spenntust fyrir á Sónar! Hana vantaði sviðs-dj og það var pikkað í mig, ég sagði auðvitað bara „að sjálfsögðu“ með mjög mörgum upphrópunarmerkjum!“ segir Sunna Ben sem er að vonum töluvert spenntari fyrir Sónar-hátíðinni í dag en hún var áður en hún fékk að vita af þessu nýja giggi.

Eruð þið eitthvað búnar að ræða saman? Munuð þið ekki þurfa að hittast og taka góða æfingu?

„Jú, ég er búin að fá beat og setlista, er að bíða eftir að heyra betur í fólkinu hennar en svo hitti ég hana og við förum yfir þetta betur á sándtékkinu í dag.“

Tommy Genesis spilar í kvöld, fimmtudag, í Silfurbergi klukkan tíu. Það er Glowie sem byrjar kvöldið í Silfurbergi, síðan stígur HATARI á svið og Tommy þar á eftir. Á eftir Tommy Genesis er það GKR og svo að lokum FM Belfast sem tekur við keflinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×