Sport

Sunna Rannveig með sigur í hörðum bardaga

Pétur Marinó Jónsson skrifar
Mjölniskonan Sunna Rannveig Davíðsdóttir vann í nótt sinn annan atvinnubardaga á ferlinum. Sunna bar sigur úr býtum gegn Mallory Martin í afar jöfnum bardaga.

Sunna mætti Mallory Martin á Invicta FC 22 bardagakvöldinu í Kansas í nótt. Sunna vann fyrsta atvinnubardaga sinn í Invicta í september þegar hún sigraði Ashley Greenway eftir dómaraákvörðun í fremur einhliða bardaga.

Bardaginn gegn Martin í nótt var talsvert erfiðari fyrir Sunnu og gríðarlega jafn. Sunna vann fyrstu lotuna og náði að vanka Martin í 1. lotu með góðri fléttu.

Martin kom sterk til leiks í 2. lotu og náði sjálf að vanka Sunnu og valda henni töluverðum vandræðum. Sunna fékk smá skurð fyrir ofan vinstra augað og kláraði Martin 2. lotuna með fellu. Á þessum tímapunkti var farið að hægjast á Sunnu á meðan Martin virtist vera að sækja í sig veðrið.

Það var því allt undir fyrir þriðju og síðustu lotuna. Sunna kom sterk til baka og endaði á að sigra lotuna sem skilaði henni sigri. Sunna sigraði eftir einróma dómaraákvörðun en tveir dómaranna gáfu henni tvær lotur (1. og 3. lotuna) og Martin eina en einn dómaranna gaf Sunnu allar þrjár loturnar.

Sunna er því 2-0 sem atvinnumaður og getur vel við unað eftir frábæra frammistöðu í afar jöfnum og erfiðum bardaga. Í viðtalinu eftir bardagann þakkaði Sunna fyrir stuðninginn heima en bardaginn var einn besti bardagi kvöldsins á Invicta FC 22 bardagakvöldinu.

MMA

Tengdar fréttir

Myndasyrpa: Undirbúningur Sunnu gengur vel

Sunna Rannveig Davíðsdóttir stígur aftur inn í búrið í Invicta FC í kvöld þegar hún mætir Mallory Martin en báðar unnu sinn fyrsta atvinnumannabardaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×