Golf

Sunna og Signý efstar og jafnar eftir fyrsta daginn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sunna deilir eftsta sætinu með Signýju eftir fyrsta daginn á Íslandsmótinu í golfi.
Sunna deilir eftsta sætinu með Signýju eftir fyrsta daginn á Íslandsmótinu í golfi. mynd/gsí
Signý Arnórsdóttir, Keili, og Sunna Víðisdóttir, GR, deila efsta sætinu í kvennaflokki eftir fyrsta keppnisdaginn af alls fjórum á Íslandsmótinu í golfi á Garðavelli á Akranesi.

Þær léku báðar á einu höggi undir pari eða 71 höggi en Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni er á 73 eða einu höggi yfir pari. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR, sem hefur titil að verja á mótinu, lék á 74 höggum.

Signý var með áhugavert skorkort en hún fékk par á fyrstu 17 holunum og endaði með því að slá í stöngina í upphafshögginu á 18. þar sem hún fékk fugl.

„Ég var að pútta vel og slátturinn var frábær, ég lenti ekki í neinum stórum vandræðum. Ég setti mér markmið fyrir mótið að ná góðum hring í dag - það tókst. Þegar ég sigraði árið 2013 var ég langt á eftir þegar fyrsta hringnum var lokið og ég er því í ágætri stöðu miðað við þá,“ sagði Sunna Víðisdóttir í samtali við heimasíðu Golfsambandsins.

„Rúnar bróðir minn sagði að ég hafi aldrei spilað svona hring áður – ég trúi því. Ég náði að bjarga parinu á 17. og ég var afar sátt við það enda ætlaði ég ekki að fá fyrsta skollann á hringnum. Það hefði verið skemmtilegt að enda þetta á holu í höggi en ég er afar sátt við þessa byrjun,“ sagði Signý Arnórsdóttir.

„Ég var í smá basli af og til á hringnum. Ég er búinn með allt það sem kom upp og er því bara bjartsýn á framhaldið. Þetta skor er aðeins frá því sem ég ætlaði mér en sagan er þannig að ég hef aldrei verið efst eftir fyrsta daginn í þau tvö skipti sem ég hef sigrað á Íslandsmótinu,“ sagði Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.

„Ég byrjaði fínt en fór í rugl í púttunum á síðari hlutanum. Ég er ósátt við síðari níu holurnar þar sem ég fæ einn örn en er samt þremur höggum yfir pari á þeim holum. Það er ekki hægt að vinna þetta mót á fyrsta hringnum en það er hægt að spila sig út úr því á fyrsta hringnum. Ég er ekki langt frá þessu og ég er í ljómandi góðum gír þrátt fyrir allt,“ sagði Valdís Þóra Jónsdóttir.

Staðan í kvennaflokki eftir fyrsta hringinn:

1.-2. Signý Arnórsdóttir, GK 71 (-1)

1.-2. Sunna Víðisdóttir, GR 71 (-1)

3. Valdís Þóra Jónsdóttir, GL 73 (+1)

4. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir , GR 74 (+2)

5. Sigurlaug Rún Jónsdóttir, GK 75 (+3)

6.-9. Eva Karen Björnsdóttir, GR 76 (+4)

6.-9. Ragnhildur Sigurðardóttir, GR 76 högg (+4)

6.-9. Berglind Björnsdóttir, GR 76 högg (+4)

6.-9. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK 76 högg (+4)

Signý lék á 71 höggi, eða einu undir pari.mynd/gsí

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×