Körfubolti

Sundsvall lýsir yfir gjaldþroti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hlynur og Pau Gasol í leik Íslands og Spánar á EuroBasket 2015.
Hlynur og Pau Gasol í leik Íslands og Spánar á EuroBasket 2015. vísir/valli
Sænska körfuboltaliðið Sundsvall Dragons, sem landsliðsfyrirliðinn Hlynur Bæringsson leikur með, óskaði í dag eftir að vera tekið til gjaldþrotaskipta að því er fram kemur í frétt sænska ríkissjónvarpsins.

Sundsvall hefur verið í miklum fjárhagskröggum og eftir að hafa farið yfir fjármál félagsins tók ný stjórn félagsins þá ákvörðun að óska eftir að það yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

Framtíð Sundsvall og Hlyns er því í óvissu en landsliðsmaðurinn skrifaði undir nýjan fimm ára samning við félagið síðasta sumar.

Í samtali við Fréttablaðið í mars sagði Hlynur að þetta tímabil hafi verið það efiðasta síðan hann gekk til liðs við Sundsvall 2010.

Fyrr í vetur missti Hlynur t.a.m. af leik í sænsku deildinni vegna þess að Sundsvall gat ekki staðið við greiðslu til sænska körfuknattleikssambandsins og var því meinað að nota erlenda leikmenn sína í einum leik.

Sundsvall endaði í 6. sæti í deildinni í vetur og tapaði svo 3-1 fyrir Norrköping Dolphins í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Hlynur var með 14,2 stig og 10,1 fráköst að meðatali í leik í vetur en hann var næstfrákastahæsti leikmaður sænsku deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×