Innlent

Sundmiðar og bílastæðagjöld hækka

Höskuldur Kári Schram skrifar
Vísir/GVA
Bílastæðagjöld í Reykjavík hækka um að allt að helming og sorphirða um allt að 10,6 prósent í byrjun næsta árs samkvæmt fjárhagsáætlun borgarinnar sem samþykkt var á þriðjudag. Borgarstjóri segir að í flestum tilvikum hækki gjöld í takt við verðbólguspá.

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2017 var samþykkt á fundi borgarstjórnar á þriðjudag. Viðsnúningur hefur orðið í rekstri borgarinnar á undanförnum misserum en á fyrstu níu mánuðum þessa árs var rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð um rúman milljarð en upphaflega var gert ráð fyrir 67 milljón króna afgangi.

Borgin hyggst meðal annars nýta svigrúmið til að hækka framlög til skólamála um einn og hálfan milljarð.

Gjaldskrá borgarinnar mun þó hækka almennt um 2,4 prósent um næstu áramót en sumt hækkar þó meira. Til dæmis hækkar sundmiðinn fyrir fullorðna um 5,6 prósent, úr 900 krónum í 950. Almennt gjald í bílastæðahús hækkar um allt að 13,3 prósent og önnur bílastæðagjöld um allt að helming.

Sorphirðugjald fyrir blandað sorp hækkar um 1.500 krónur eða sjö prósent en um 10,6 prósent fyrir bláu tunnurnar.

Þá munu byggingaleyfisgjöld hækka um allt að 33,7 prósent. Aðgangur fyrir börn að fjölskyldu- og húsdýragarðinum um 3,2 prósent og aðgangur fyrir fullorðna að Listasafni Reykjavíkur um 6,7 prósent. Bókasafnsskírteini mun hækka um 8,1 prósent.

„Gjöldin hækka fyrst og fremst þar sem að það er lögbundið. Þau eiga að standa undir raunkostnaði eins og í sorphirðunni. Síðan hækka gjöld um 2,4 prósent hjá okkur í takt við verðbólguspána. En önnur gjöld standa í stað eða hækka ekki neitt eins og t.d. á leikskólunum. Við erum að stíga stóra skref að hækka frístundakort sem fjölskyldur nota til að greiða fyrir frístundir, íþróttir og tónlist úr 35 þúsund á ári í 50 þúsund á ári. Þannig að ég held að myndin sé býsna góð fyrir fjölskyldur í borginni samanborið við önnur sveitarfélög,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×