Innlent

Sundferðin langdýrust í Reykjavík

Ingvar Haraldsson skrifar
Mannmörg Laugardalslaug. Gestir hennar og annarra sundlauga í Reykjavík munu þurfa að greiða talsvert meira fyrir staka sundferð en í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.
Mannmörg Laugardalslaug. Gestir hennar og annarra sundlauga í Reykjavík munu þurfa að greiða talsvert meira fyrir staka sundferð en í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. vísir/gva
Eftir að gjaldskrárhækkanir Reykjavíkurborgar í sund taka gildi verður 60 prósentum dýrara fyrir fjögurra manna fjölskyldu að fara í sund í Reykjavík en í Hafnarfirði sé greitt fyrir staka ferð.

Fulltrúar annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu segja enga umræðu hafa farið fram um að hækka gjaldskrár í sund. Hins vegar standi vinna að fjárhagsáætlun fyrir næsta ár yfir og þar verði allar gjaldskrár teknar til skoðunar og því sé ekki hægt að útiloka verðskrárhækkanir á næsta ári.

Sé miðað við fjögurra manna fjölskyldu, tvo fullorðna og tvö börn, eitt sex ára og annað tólf ára, mun sundferðin í Reykjavík, eftir að gjaldskrárhækkun tekur gildi, kosta 2.080 krónur en um 1.300 krónur í Hafnarfirði, 1.330 krónur í Kópavogi og Garðabær og 1.350 krónur í Mosfellsbæ. Næstdýrast er fyrir fjölskylduna að fara í sund á Seltjarnarnesi en ferðin mun kosta hana 1.440 krónur. Í Hafnarfirði eru hins vegar rukkaðar 100 krónur aukalega fyrir hvern fullorðinn einstakling sem ætlar í gufubað. Þá hækkar sundferðin í 1.500 krónur og verður næstdýrust.

Mun minni verðmunur er milli 10 skipta korta og árskorta en stakra sundferða. Tíu skipta kort er dýrast í Kópavogi en þar kostar það 4.700 krónur. Hins vegar fást 2.500 krónur endurgreiddar sé rafrænu korti sem notað er til að greiða fyrir hverja ferð skilað. Ódýrast er tíu skipta kortið í Hafnarfirði þar sem það kostar 3.300 krónur. Það sama er rukkað í Mosfellsbæ en þar þurfa notendur að greiða 570 krónur sérstaklega fyrir Moskortið sem sundferðirnar eru fylltar á. Þá kostar tíu skipta kort í Garðabæ 3.600 krónur, 4.000 krónur á Seltjarnarnesi og 4.300 krónur í Reykjavík.

Árskortið í Garðabæ er dýrast en það kostar 32.000 krónur og litlu minna í Reykjavík og Mosfellsbæ. Ódýrast er árskortið í Hafnarfirði þar sem það kostar 25.200 krónur.

Fyrir börn er ódýrast að fara í sund á Seltjarnarnesi þar sem ferðin kostar 120 krónur en dýrast í Mosfellsbæ og Kópavogi þar sem sundferðin kostar 150 krónur.

Hins vegar er misjafnt milli sveitarfélaga hvenær byrjað er að rukka fyrir börn í sund. Börn í Hafnarfirði eru rukkuð frá 5 ára aldri en ekki fyrr en við 11 ára aldur í Garðabæ.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×