Enski boltinn

Sunderland úr fallsæti og loksins vann Crystal Palace | Úrslit dagsins | Sjáðu mörkin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sunderland vann sinn þriðja sigur í síðustu fjórum leikjum í dag og er komið úr fallsæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Sunderland hafði betur gegn Englandsmeisturum Leicester, 2-1, en meistararnir eru farnir að nálgast fallsvæði deildarinnar óðfluga. Leicester hefur ekki unnið síðustu fimm leiki sína í deildinni og er í fimmtánda sæti með þrettán stig - 21 stigi á eftir toppliði Chelsea.



Robert Huth skoraði sjálfasmark sem kom Sunderland yfir á 64. mínútu. Jermain Defoe skoraði annað mark liðsins eftir að hann fylgdi á eftir skoti Duncan Watmore sem var varið.

Shinji Okazaki minnkaði muninn fyrir Leicester á 80. mínútu en nær komust meistararnir ekki. Leicester hefur því ekki enn unnið deildarleik á útivelli á tímabilinu.

Sunderland er enn í fallsæti en komst í dag upp fyrir bæði Hull og Sweansea, sem steinlá fyrir Tottenham í dag.

Langþráður sigur Palace

Crystal Palace gerði sér lítið fyrir og skellti Southampton á heimavelli, 3-0. Christian Benteke skoraði tvö marka Palace og James Tomkins eitt.

Palace hafði tapað sex leikjum í röð fyrir daginn og sigurinn því kærkominn fyrir Alan Pardew, knattspyrnustjóra. Liðið er í þrettánda sæti með fjórtán stig.



West Brom í sjötta sætið

West Brom komst upp í sjötta sæti deildarinnar, upp fyrir Manchester United, með 3-1 sigri á Watford. Jonny Evans skoraði með skalla, Chris Brunt með góðu skoti og Christian Kabasele það þriðja af stuttu færi.

Roberto Pereyra, leikmaður Watford, fékk að líta rauða spjaldið seint í leiknum eftir að hann brást illa við tæklingu James McClean.



Þriðja tap Burnley í röð

Stoke vann Burnley, 2-0, þar sem Marc Muniesa skoraði sitt fyrsta úrvalsdeildarmark. Jonathan Walters hafði þá komið Stoke yfir í leiknum eftir fyrirgjöf Mame Biram Diouf.

Jóhann Berg Guðmundsson var ekki í leikmannahópi Burnley í dag vegna meiðsla. Þetta var þriðja tap Burnley í deildinni í röð en liðið er í fjórtánda sæti með fjórtán stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×