Innlent

Sumri fagnað í öllum hverfum borgarinnar

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Hátíðirnar eru samstarfsverkefni frístundamiðstöðva, þjónustumiðstöðva og frjálsra félagasamtaka.
Hátíðirnar eru samstarfsverkefni frístundamiðstöðva, þjónustumiðstöðva og frjálsra félagasamtaka.
Sumardeginum fyrsta verður fagnað með margvíslegri skemmtun fyrir börn og fullorðna, s.s. skrúðgöngum og hljóðfæraleik, í öllum hverfum Reykjavíkur. Meðal annars verður boðið upp á skemmtidagskrá við frístundamiðstöðvar og í sundlaugum.

Fjölskylduhelgistundir verða í nokkrum kirkjum borgarinnar.

Í félagsmiðstöðvum verður hægt að skemmta sér við að hoppa í hoppköstulum, grilla pylsur, horfa á danssýningar, hlusta á söng, fá kennslu í skylmingum, perluskálagerð og taka þátt í ýmsum keppnum og þrautum auk ýmislegs annars sem greint er frá á vef Reykjavíkurborgar, reykjavik.is, en þar er að finna ítarlega dagskrá.

Kórarnir í Hamrahlíð halda undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur upp á sumarkomu með skemmtun í hátíðarsal Menntaskólans við Hamrahlíð. Í fréttatilkynningu segir að kórfélagar vilji hressa fólk með góðri blöndu af vorvítamíni eftir kennaraverkfall og rysjótta tíð. Haldnir verða tvennir tónleikar, það er kl. 14 og 16.

Á milli tónleikanna og á eftir verða seldar kaffiveitingar. Þá verða ýmis skemmtiatriði og uppákomur, meðal annars hljóðfæraleikur og hljóðfærastofa, bangsa- og dúkkuspítali, vísinda- og tilraunastofa, skátahorn, hárgreiðsla og andlitsmálun, ljósmyndastofa og fatamarkaður. Aðgangur er ókeypis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×