Lífið

Sumir tala bara í setningum úr myndinni

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Sæþór Ásgeirsson í fullum skrúða að mjólka sig upp fyrir keppnina í kvöld.
Sæþór Ásgeirsson í fullum skrúða að mjólka sig upp fyrir keppnina í kvöld. vísir/valli
Aðdáendur kvikmyndarinnar The Big Lebowski koma saman í kvöld í árlegri búninga- og spurningakeppni. Auk þess verður keppt í keilu, íþróttinni sem aðalpersónum myndarinnar þykir svo vænt um.

„Þetta verður í níunda sinn sem við höldum þessa hátíð,“ segir Svavar Jakobsson, annar skipuleggjenda hátíðarinnar. Ólafur Jakobsson skipuleggur hátíðina ásamt Svavari.

Á myndinni hér til hliðar má sjá sigurvegarann úr búningakeppninni í fyrra, Sæþór Ásgeirsson, í fullum skrúða.

Svavar segir að menn taki búningakeppnina misalvarlega. „Sumir leggja ofboðslega mikið í búningana og tjá sig bara með setningum úr myndinni. Maður er svolítið óviss með þá menn,“ segir Svavar og skellir upp úr.

Markmið búningakeppninnar er að vera sem líkastur persónum úr myndinni. Hátíðin verður haldin í Keiluhöllinni í Egilshöll og stendur öllum til boða að mæta.

„Við bjóðum alla sem hafa aldur til velkomna. Þetta verður skemmtilegt, húsið verður opnað klukkan 20. Þarna verður keppt í keilu og síðan höldum við spurningakeppni. Hápunkturinn og um leið lokahnykkur kvöldsins verður svo verðlaunaafhending fyrir búningakeppnina en hún hefst þarna um hálf tvö.“

Svavar segir að það standi svo gestum til boða að fara á skemmtistaðinn The Big Lebowski bar að lokinni verðlaunaafhendingunni. Þeir sem verði í búningi fái hvítan Rússa án endurgjalds, en drykkurinn kemur mikið við sögu í myndinni. „Þetta er alltaf alveg rosalega skemmtilegt kvöld og við hvetjum aðdáendur myndarinnar til að mæta."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×