Innlent

Sumir „doktórar“ ekki hálfdrættingar á við þá sem sinna þrifum

Jakob Bjarnar skrifar
Kári Stefánsson stendur með sínu fólki, hvort sem titillinn er doktór eða ræstitæknir - hvað svo sem Stefán Pálsson segir.
Kári Stefánsson stendur með sínu fólki, hvort sem titillinn er doktór eða ræstitæknir - hvað svo sem Stefán Pálsson segir.
Ummæli Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, þess efnis að háskólagráður segi lítið til um mannkosti, getu og framlag hvers og eins, hafa vakið mikla athygli. Í viðtali við Kára á Vísi í gær var nefnt sem dæmi um það stöðufærsla sem Stefán Pálsson sagnfræðingur hafði látið flakka vegna þessarar umræðu:

„Rifjið upp fyrir mér gott fólk – hvað hefur Kári Stefánsson ráðið marga gagnfræðinga í vinnu í annað en þrif og aðstoð í mötuneyti í fyrirtæki sínu?“

Kári er ekki þeirrar gerðar að vilja láta menn eiga nokkuð inni hjá sér, en þar sem hann er ekki skráður á Facebook er Vísi ljúft og skylt að koma á framfæri svari Kára til Stefáns, svohljóðandi:

„Stefán, það er rétt sem þú gefur í skyn að ég hafi ekki ráðið marga gagnfræðinga til vísindastarfa.

Flestir sem sinna þeirri iðju hjá okkur hafa doktórsgráðu af einhverri gerð. Það er hins vegar alls ekki sjálfgefið að doktórarnir leggi meira af mörkum til fyrirtækisins eða samfélagsins almennt en það harðduglega og flotta fólk sem þrífur hjá okkur mötuneyti að maður tali nú ekki um hann Kidda, sem er húsvörðurinn okkar og alsherjar reddari. Við höfum haft í vinnu doktóra sem hafa ekki verið hálfdrættingar á við þá sem sinna þrifum hjá okkur og svo höfum við haft doktóra sem eru slíkir snillingar að þeir eru að breyta heiminum með vinnu sinni. Báðir hópar hafa háskólagráðu af hæstu gerð og hún hafði nákvæmlega ekkert forspárgildi um framlag þeirra til fyrirtækisins þegar þeir voru ráðnir.

Þetta er endanlega bara spurning um það hvort menn haldi uppi sínum enda á plankanum en ekki hvort menn séu með prófskírteini upp á vasann meðan þeir eru að gera það.“

RIfjið upp fyrir mér gott fólk - hvað hefur Kári Stefánsson ráðið marga gagnfræðinga í vinnu í annað en þrif eða aðstoð í mötuneyti í fyrirtækinu sínu?

Posted by Stefán Pálsson on 1. júní 2015

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×