Erlent

Sumarveðrið varð Áströlum dýrkeypt

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Gróðureldar eyðilögðu tugi heimila í austurhluta Ástralíu.
Gróðureldar eyðilögðu tugi heimila í austurhluta Ástralíu. Nordicphotos/AFP
Sumarið í Ástralíu varð það heitasta og blautasta síðan mælingar hófust. Sums staðar fór hitinn yfir 35 stig 54 daga í röð. Alls voru meira en 200 veðurmet slegin sumarmánuðina þrjá, sem þar eru desember, janúar og febrúar.

Þetta kemur fram í skýrslu Loftslagsráðs Ástralíu, þar sem fullyrt er að Ástralíubúar hafi aldeilis fengið að kenna á loftslagsbreytingum af mannavöldum þetta sumarið.

Skýrslan nefnist Angry Summer, eða reiða sumarið.

Mikill munur var þó á veðrinu eftir því hvar í Ástralíu borið er niður. Í austurhluta álfunnar voru miklar hitabylgjur, steikjandi heitir dagar og mikið um gróðurelda. Í vesturhlutanum var hins vegar úrhellisrigning með miklum flóðum.

Meðal annars er nefnt að íbúar borgarinnar Adelaide hafi ekki upplifað meiri hita á jóladag í sjötíu ár, en nú í sumar komst hitinn þar upp í 41,3 gráður á Celsius. Og í Sydney varð hitinn meiri en nokkru sinni hefur mælst, eða 2,8 stigum hærri en meðaltalið.

Fullyrt er að þessi þróun eigi eftir að halda áfram. Búast megi við meiri öfgum í veðri með tíðari hitabylgjum og nýjum hitametum.

Alls gerðist það á að minnsta kosti nítján stöðum í Ástralíu að hitinn komst yfir 40 stig fleiri daga en áður hefur mælst, og er þá miðað við að minnsta kosti 40 ára tímabil. Alvarlegasta hitabylgjan þetta sumarið hófst 31. janúar og stóð til 12. febrúar.

Þessir miklu hitar kosta þjóðfélagið stórfé. Enn eigi að vísu eftir að meta kostnaðinn af sumrinu sem var að líða, en vitað sé að sumarið 2013 til 2014 hafi kostað ástralska skattborgara um það bil átta milljarða dala, eða nærri 650 milljarða króna.

Hitabylgjurnar í Ástralíu hafa veruleg áhrif á heilsu margra. Loftslagsráð Ástralíu telur að á tímabilinu 1890 til 2013 hafi hitabylgjur kostað um 2.900 manns lífið, en það eru fleiri dauðsföll en urðu samtals af völdum gróðurelda, fellibylja, jarðskjálfta, flóða og ofsaveðurs á þessu sama tímabili.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×