Erlent

Sumartími getur valdið streitu

ingibjörg bára sveinsdóttir skrifar
Þeir sem fara seint að sofa og vakna seint verða fyrir mestum áhrifum af breytingum á klukkunni.
Þeir sem fara seint að sofa og vakna seint verða fyrir mestum áhrifum af breytingum á klukkunni. Nordicphotos/getty
Niðurstöður rannsókna hafa leitt í ljós nokkra fjölgun umferðarslysa og hjartaáfalla í kjölfar breytinga á klukkunni. Þetta hefur sænska blaðið Expressen eftir Torbjörn Åkerstedt, prófessor við Karolinsku stofnunina í Stokkhólmi og Streiturannsóknastofnunina. Hann segir breytingarnar hafa mest áhrif á þá sem hafa litla svefnþörf og þá sem fara seint að sofa og vakna seint. Klukkunni var flýtt í Svíþjóð um eina klukkustund um liðna helgi. Breytingarnar eru ónauðsynlegar, að mati Åkerstedt.

Tímaþjálfinn Dorotea Pettersson, sem aðstoðar fólk við að skipuleggja daga sína, er sömu skoðunar. Hún segir breytingarnar koma niður á góðri rútínu.

Hugmyndin um sumartíma í Svíþjóð vaknaði þegar í lok nítjándu aldar. Tilraun var gerð með sumartíma 1916. Það var hins vegar orkukreppan á áttunda áratug síðustu aldar sem varð til þess að ákveðið var að breyta klukkunni í Svíþjóð til frambúðar. Frá árinu 1980 hefur klukkunni verið breytt tvisvar á ári. Henni er flýtt á vorin og seinkað á haustin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×