Fótbolti

Sumarmessan: Tekur Guðlaug Victor fram yfir Messi

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Christian Eriksen eða Gylfi Þór Sigurðsson? Hvor er betri leikmaður? Þessari spurningu varpaði Benedikt Valsson fram í Sumarmessunni á Stöð 2 Sport í gærkvöld.

„Gylfi tekur betri aukaspyrnur,“ byrjaði Hjörvar Hafliðason aðeins hikandi.

„Ég segi að sjálfsögðu Gylfi Sig,“ bætti hann svo við af meiri krafti. „Þegar Íslendingur og Dani hittast þá er rifist um þetta.“

Aron Jóhannsson tók undir með Hjörvari. „Gylfi er okkar maður og hann er búinn að koma okkur á HM. Hann er í þessum klassa, þeir eru í svipuðum heimsklassa.“

Spurningunni var varpað fram í liðnum Dynamo þrasið og þar kom einnig fram áhugaverð pæling. Ef ætti að velja einn leikmann sem ekki er á HM í íslenska landsliðshópinn, hvern myndu þeir velja? Þá var átt við hvaða leikmann í heimi, af hvaða þjóðerni sem er, en margir bestu leikmanna heims komust ekki á HM.

„Fúnkera þeir í þessu liði? Ég myndi ekki vilja hafa Messi í þessu liði,“ sagði Aron sem átti í erfiðleikum með að finna einhvern leikmann, annan en Guðlaug Victor Pálsson sem var hans fyrsta svar, sem hann myndi taka inn í liðið.

„Fyrst að Jói Berg er meiddur ætla ég að henda Gareth Bale í liðið, hann er með ágætis vinstri fót,“ sagði Hjörvar.

Sumarmessan er á dagskrá á Stöð 2 Sport klukkan 21:00 að kvöldi hvers leikdags.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×