Fótbolti

Sumarmessan: Mexíkó bestir í fyrstu umferðinni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mexíkó átti bestu frammistöðu allra liða í fyrstu umferð heimsmeistaramótsins að mati strákanna í Sumarmessunni á Stöð 2 Sport.

Fyrsta umferðin kláraðist í gær og henti Benedikt Valsson fram spurningunni um það hvaða lið voru best og verst í liðnum Dynamo þrasið í Sumarmessunni í gærkvöld.

„Versta liðið er Sádi-Arabía,“ var Gunnleifur Gunnleifsson fljótur að henda fram og voru þeir allir sammála um það.

Gunnleifur sagði Mexíkó hafa verið frábæra og tók Aron Jóhannsson undir það.

„Mexíkó vinna heimsmeistarana og mér fannst sigurinn hjá Mexíkó vera sannfærandi,“ sagði Aron.

Aðspurðir hvaða úrslit hafi komið mest á óvart var það fyrsta sem kom upp sigur Japan á Kólumbíu.

„Ég býst alltaf við svo miklu af Íslandi og hafði alltaf trú á því að þeir myndu standa í Argentínu en ég átti ekki von á því að Japanir myndu standa í Kólumbíu,“ sagði Aron.

Gunnleifur var sammála því að jafntefli Íslands og Argentínu hafi ekki komið á óvart. Hann nefndi jafntefli Sviss og Brasilíu og sigur Mexíkó á Þýskalandi var einnig nefndur.

Síðasta þrasið var hvernig Ísland eigi að fara að því að vinna Nígeríu og það var ekki flókið svar, halda áfram með liðsheild, varnarleik og baráttu og halda í okkar gildi.

Sumarmessan er á dagskrá á Stöð 2 Sport klukkan 21:00 að kvöldi hvers leikdags á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×