Fótbolti

Sumarmessan: Liðsheild Belga ekki nógu sterk til að vinna HM

Belgar unnu öruggan sigur á Panama í fyrsta leik þeirra á HM í Rússlandi í gær. Belgar voru fyrir mótið taldir ein af sigurstranglegri þjóðunum, en geta þeir unnið mótið?

„Nei, þeir geta það ekki,“ sagði Gunnleifur Gunnleifsson einfaldlega þegar Benedikt Valsson lagði þessa spurningu fram í Dynamo þrasinu í Sumarmessunni á Stöð 2 Sport í gærkvöld.

„Það er ekki nógu mikil liðsheild þarna þótt þeir séu með fullt af einstaklingum sem eru frábærir.“

Hjörvar Hafliðason var ekki sammála fyrrum landsliðsmarkverðinum og sagði þá geta lyft gullstyttunni í júlí.

Þá fór Benedikt í aðeins viðkvæmari spurningu, eru Svíar og Danir betri en við? Báðar þjóðir unnu sína opnunarleiki, en voru þó að spila við þjóðir lægra á heimslistanum margumtalaða en Argentínu.

„Gott og vel, skemmtileg pæling. Ég skal alveg viðurkenna það að Danir eru með betri mannskap en við, en við erum betri en Svíar,“ sagði Hjörvar.

„Ég get ekki beðið eftir því að við spilum við Dani í 16-liða úrslitum. Það yrði geggjað,“ bætti hann við en það er möguleiki á því að það gerist. Danir spila í C riðli og mætast í 16-liða úrslitunum annars vegar lið C1 og D2 og hins vegar C2 og D1.

Gunnleifur sagðist verða að vera sammála.

Þeir ræddu einnig félagsskipti Rúnars Alex Rúnarssonar til Dijon í Frakklandi.

Sumarmessan er á dagskrá á Stöð 2 Sport klukkan 21:00 að kvöldi hvers leikdags á HM í Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×