Fótbolti

Sumarmessan: „Pickford er of feitur og of lítill“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Markmennirnir þrír í enska hópnum. Jack Butland, Nick Pope og Jordan Pickford.
Markmennirnir þrír í enska hópnum. Jack Butland, Nick Pope og Jordan Pickford. Vísir/getty
Englendingar hefja leik á HM í Rússlandi í kvöld þegar þeir mæta Túnis í sínum fyrsta leik. Markmannsmálin voru eitt helsta hitamálið fyrir keppnina og ræddu strákarnir í Sumarmessunni markmenn enska liðsins í gærkvöld.

Benedikt Valsson kastaði fram spurningunni hvort Jack Butland eða Jordan Pickford ætti að byrja á móti Túnis í liðnum Dynamo þrasið.

„Ég er eiginlega að spá í að fara út fyrir þessa báða og ég vill sjá [Nick] Pope í byrjunarliðinu. Mér finnst þeir báðir svo lélegir þessir markmenn,“ sagði sérfræðingurinn Reynir Leósson.

„Ég hef horft á Pickford spila tvisvar „live“ og mér finnst hann ekki góður, þannig að mér finnst hvorugur þessara markmanna nógu góður.“

Hjörvar Hafliðason tók undir þetta hjá Reyni og spurði: „Hvað pirrar þig við Pickford? Fannst þér hann ekki a, of feitur og b, of lítill?“

„Það og, það er alltaf verið að hrósa hvernig hann sparkar, mér finnst hann bara alltaf dúndra eitthvert langt,“ svaraði Reynir.

„Ég er á vissan hátt sammála, en fyrir mér eru bestu markverðir Englands bara í Englandi í dag,“ sagði Hjörvar. „Joe Hart og Ben Foster. Southgate er búinn að ákveða að velja Pickford en ég er ekki aðdáandi og Butland er fyrir mér einn ofmetnasti íþróttamaður Evrópu.“

Strákarnir þræddu einnig um hvern Heimir setur inn fyrir Jóhann Berg Guðmundsson og hvort Brasilíumenn séu nógu góðir til að vinna mótið.

Sumarmessan er á dagskrá á Stöð 2 Sport klukkan 21:00 að kvöldi hvers leikdags.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×