Erlent

Suge Knight grunaður um morð

Jakob Bjarnar og Samúel Karl Ólason skrifa
Marion „Suge“ Knight er hér á mynd ásamt Tupac Shakur.
Marion „Suge“ Knight er hér á mynd ásamt Tupac Shakur. Vísir/AP
Lögreglan í Los Angeles leitar nú ákaft Marion Knight, sem betur er þekktur sem hip-hop tónlistarframleiðandinn Suge, en hann er talinn eiga aðild að því þegar ekið var á vegfarendur með þeim afleiðingum að einn dó og annar er á spítala, en ekki er vitað um ástanda hans.

Knight var áður stjórnandi hins margfræga útgáfufyrirtækis Death Row Records, og hefur hann komist ítrekað í kast við lögin. Í október var hann, ásamt grínistanum Katt Williams, ákærður fyrir rán en þeir voru taldir hafa stolið myndavél frá vel þekktum ljósmyndara í Beverly Hills.

Í ágúst var Knight fyrir því að vera skotinn nokkrum sinnum þar sem hann var staddur á næturklúbbi í Hollywood.

Lögmaður Suge, segir að tveir menn hafi ráðist á hann og hann hafi óvart keyrt yfir tvo menn við það að flýja árásarmennina. AP fréttaveitan segir málið rannsakað sem morð.

Talsmaður lögreglunnar segir vitni sem lögreglan hefur rætt við hafa lýst atburðinum á þann veg að Suge hafi bakkað á mennina á rauðum pallbíl. Þá er hann sagður hafa keyrt aftur yfir mennina.

Maðurinn sem dó var 55 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×