Erlent

Suður-Kóreustjórn staðfestir að hálfbróðir Kim Jong-un hafi verið drepinn

atli ísleifsson skrifar
Hálfbræðurnir Kim Jong-nam og Kim Jong-un.
Hálfbræðurnir Kim Jong-nam og Kim Jong-un. Vísir/AFP
Stjórnvöld í Suður-Kóreu segjast nú sannfærð um að hálfbróðir Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, hafi verið ráðinn bani í Malasíu á mánudag.

Kim Jong-nam lést eftir eiturárás á flugvellinum í malasísku höfuðborginni Kuala Lumpur. Ekkert liggur fyrir um ástæður árásarinnar og enginn hefur verið handtekinn.

Hwang Kyo-ahn, starfandi forseti Suður-Kóreu, segir að ef í ljós komi að Norður-Kóreustjórn beri ábyrgð á árásinni myndi það varpa ljósi á „hrottalegt og ómanneskulegt“ eðli hennar. Sagði hann að yfirvöld í Suður-Kóreu fylgist grannt með gangi mála hjá grönnunum í norðri.

Kim Jong-nam var eldri bróðir Kim Jong-un og elsti sonur Kim Jong-il, fyrrverandi leiðtoga Norður-Kóreu.

Norður-Kóreustjórn hefur enn ekki tjáð sig um dauðsfallið en fulltrúar sendiráðs landsins í Malasíu hafa heimsótt sjúkrahúsið þar sem lík Kim Jong-nam er nú að finna.

Að sögn erlendra fjölmiðla var eitri úðað fram í hann af tveimur konum, sem taldar eru útsendarar Norður-Kóreustjórnar. Þær flúðu af vettvangi í leigubíl.

Kim Jong-nam var á leið í flug til Macau þar sem hann bjó. Var ferðaðist með vegabréf undir nafninu Kim Chol.


Tengdar fréttir

Sagði einhvern hafa spreyjað framan í sig

Fjölmiðlar í Suður-Kóreu fullyrða að tvær konur, sem taldar eru vera útsendarar frá Norður-Kóreu, hafi ráðist á Kim Jong Nam á flugvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×