Fótbolti

Suárez komið að fleirum mörkum en Messi og Ronaldo í fyrstu 100 leikjunum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Luis Suárez hefur fagnað mikið af mörkum.
Luis Suárez hefur fagnað mikið af mörkum. vísir/getty
Luis Suárez kom inn á sem varamaður hjá Barcelona þegar Spánarmeistararnir töpuðu afar óvænt fyrir nýliðum Alavés, 2-1, á laugardaginn. Hann gat ekki komið í veg fyrir þetta neyðarlega tap í sínum 100. leik fyrir Katalóníurisann.

Þrátt fyrir að skora ekki í leiknum er árangur þessa ótrúlega framherja með ólíkindum í fyrstu 100 leikjunum en hann hefur í heildina komið að 131 marki. Suárez er búinn að skora 88 mörk sjálfur í fyrstu 100 leikjunum og leggja upp önnur 43.

Suárez hefur aðeins tapað tólf sinnum í fyrstu 100 leikjunum en unnið 80 af þeim og unnið spænsku deildina í tvígang og Meistaradeildina einu sinni.

mynd/sky sports
Úrúgvæinn hefur komið að fleiri mörkum í fyrstu 100 leikjunum en bæði Cristiano Ronaldo og Lionel Messi gerðu á Spáni. Ronaldo skoraði vissulega meira eða 95 í fyrstu 100 leikjunum en lagði upp 29 og átti þannig beinan þátt í 124 mörkum.

Lionel Messi skoraði 41 mark og lagði upp 14 (55 í heildina) í fyrstu 100 leikjunum og er þar langt á eftir Suárez.

„Hann er langbesta nían í heiminum í dag,“ sagði Thierry Henry, fyrrverandi leikmaður Barcelona, um Suárez á Sky Sports í gær en Frakkinn er mikill aðdáandi.

„Áttatíu mörk og 43 stoðsendingar í 100 leikjum. Maðurinn er búinn að eiga þátt í 131 marki. Hvar hafið þið séð framherja gera þetta?“

„Suárez er besti mannlegi leikmaðurinn. Ég tel Messi og Ronaldo ekki með ví þeir eru frík. Það þarf ekkert að ræða þetta frekar. Suárez er besti framherji heims,“ sagði Thierry Henry.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×