Enski boltinn

Suárez: Guardiola kemur með tiki-taka til Englands

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pep Guardiola.
Pep Guardiola. vísir/getty
Pep Guardiola mun gera lið Manchester City betra með því að láta það spila sinn víðfræga tiki-taka fótbolta. Þessu heldur Denis Suárez, leikmaður Barcelona, fram.

Suárez ólst upp hjá Barcelona og var undir stjórn Guardiola. Hann spilaði með Villareal á síðasta ári en Börsungar nýttu sér endurkaupsrétt á leikmanninum og fengu hann heim í sumar.

„Pep Guardiola mun koma með öðruvísi leikstíl inn í ensku úrvalsdeildina. Það verður meira tiki-taka hjá honum,“ segir Suárez sem er staddur með Barcelona á Írlandi.

„Þó City er sterkt lið sem er búið að vinna ensku úrvalsdeildina nokkrum sinnum nú þegar mun Pep klárlega gera liðið betra og passa upp á að það spili öðruvísi fótbolta.“

„Guardiola vann þrennuna á Spáni og vonandi getur hann gert það sama á Englandi. Hann fær það verkefni að sameina leikmenn frá mismunandi menningarheimum. Það er annað en ahnn er vanur en ég er viss um að honum tekst þetta,“ segir Denis Suárez.

Pep Guardiola er staddur með City-liðið í æfingaferð í Kína þar sem það á eftir leik gegn Dortmund í ICC-æfingamótinu. Leik liðsins gegn Manchester United sem átti að fara fram í gær var aflýst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×