Innlent

Styttist vonandi í sumarið því upp er kominn strandblaksvöllur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Völlurinn í sólinni í Laugardalnum.
Völlurinn í sólinni í Laugardalnum. Mynd/Reykjavíkurborg
Glæsilegum strandblaksvelli hefur verið komið upp við Laugardalslaug. Tilefnið er Smþajóðaleikarnir sem hefjast á mánudaginn en völlurinn verður hins vegar í kjölfarið aðgengilegur gestum laugarinnar.

„Þetta er verulega skemmtilegt en nú verður keppt í fyrsta sinn á alþjóðlegu móti í strandblaki á Íslandi,“ segir Torfi Jóhannsson frá Blaksambandi Íslands í viðtali á heimasíðu Reykjavíkurborgar. Torfi verður vallarstjóri á strandblaksmótinu á Smáþjóðaleikunum.

Torfi Jóhannsson frá Blaksambandi Íslands.Heimasíða Reykjavíkurborgar
Þrátt fyrir að völlurinn sé búinn til sérstaklega fyrir keppni á Smáþjóðaleikana er hann varanlegt mannvirki og verður hann opinn fyrir gesti Laugardalslaugar líkt og hreystibrautin við hliðina.

Laugargestir munu því geta spreytt sig á strandblaki í framtíðinni sem bætir þjónustu Laugardalslaugar enn frekar. Þá verður völlurinn nýttur til innlendra og alþjóðlegra móta í framtíðinni.

Eðli málsins samkvæmt vilja flestir stunda strandblak í sól og sumaryl. Þegar horft er til veðurs í næstu viku lítur út fyrir að hiti nái sjaldan tveggja stafa tölu. Því er kannski ágætt að fagmenn sjái um að hita upp völlinn fyrir sundlaugargesti sem geta notið vallarins þegar hlýnar, vonandi, á næstu vikum.

Völlurinn lítur sérstaklega vel út í sólinni.Heimasíða Reykjavíkurborgar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×