Innlent

Styttist í virkt eftirlit með Airbnb-útleigu

Snærós Sindradóttir skrifar
Ríflega 3000 íbúðir voru skráðar á Airbnb í Reykjavík í júlí síðastliðnum.
Ríflega 3000 íbúðir voru skráðar á Airbnb í Reykjavík í júlí síðastliðnum. vísir/andri marinó
Ekki er búið að ráða í stöðu þess aðila sem ber að hafa eftirlit með útleigu íbúða á Airbnb hér á landi. Nýjar reglur um útleigu íbúðanna gengu í gildi um áramót og í kjölfarið var auglýst staða umsjónarmanns verkefnisins hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

Umsóknarfrestur vegna starfsins rann út 27. febrúar síðastliðinn og bárust embættinu 93 umsóknir. Vigdís Edda Jónsdóttir mannauðsstjóri segir að nú standi yfir viðtöl við þá umsækjendur sem koma til greina en hæfniskröfur voru meðal annars háskólamenntun sem nýtist í starfi. Þá var meðal annars átt við háskólamenntaða einstaklinga sem hafa reynslu af tölfræðivinnu. Vigdís segir að til standi að klára ráðningarferlið fyrir mánaðamót.

Nýju Airbnb-reglurnar gera ráð fyrir að allir þeir sem leigja út í heimagistingu skrái sig hjá sýslumanni og skuldbindi sig til að lúta takmörkunum á fjölda leigudaga og hámarki leigutekna. Þá fá þeir sem skrá sig númer sem þeim ber að hafa sýnilegt þar sem eignin er auglýst og í íbúðinni sjálfri. Eftirlitsmaðurinn mun rannsaka hvort reglunum sé fylgt.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×