Skoðun

Stytting framhaldsskólans

Baldvin Ringsted skrifar
Pawel Bartoszek skrifaði nýlega pistil í Fréttablaðið um styttingu framhaldsskólans. Þar segir hann: „Það verður að skoða menntakerfið í heild sinni.“ En það gerir hann ekki. Hann virðist sammála menntamálaráðherra: allt er gott í útlöndum og aumt á Íslandi.

Pawel segir: „Í tveggja ára gamalli skýrslu menntamálaráðuneytisins kemur fram að einungis 44% íslenskra menntaskólanema ljúka námi á tilskildum tíma. Annars staðar á Norðurlöndunum er hlutfallið yfir 70%.“

Að ljúka á tilskildum tíma táknar líklega að nemandinn sé 20 ára þegar hann útskrifast sem stúdent á Íslandi. Í viðmiðunarlöndunum eru nemendur settir í fullorðinsfræðslu ef þeir ná ekki að ljúka á tilskildum tíma, fá kannski eitt ár aukalega. Nemendur í framhaldsskólum viðmiðunarlandanna fá skólastyrk, fríar bækur o.fl. Það eru til ungmenni á Íslandi sem hafa ekki ráð á skólagöngu og þurfa að slíta hana í sundur og lengja. Í viðmiðunarlöndunum er líka fjöldi styttri námsbrauta. Til dæmis er meiraprófið inni í framhaldsskólunum en íslenskir meiraprófsbílstjórar eru margir skráðir sem brottfall þar sem þeir hafa gjarnan mátað sig í skóla, fengið fínan undirbúning fyrir meiraprófið en ekki útskrifast.

Tugir nemenda ljúka árlega stúdentsprófi samhliða vélstjórnarnámi sem er fimm ár, þeir eru a.m.k. 21 árs og margir eldri því þeir taka gjarnan hlé á námi til að ná sér í reynslu. Fjöldi iðnnema tekur líka stúdentspróf að loknu iðnnámi komnir yfir tvítugt.

Enn fremur segir Pawel: „Nám til stúdentsprófs verður að vera jafninnihaldslítið og í Danmörku. Kröfurnar verða að vera jafnlitlar og í Finnlandi. Þessar þjóðir eru reyndar í efstu tveimur sætum þegar kemur að svokallaðri menntunarvísitölu Sameinuðu þjóðanna.“

Til eftirbreytni?

Finnskur kennari sem var að vinna með mér í verkefni sagði mér að allir útskrifuðust hvort sem þeir fengu 1, 2 eða 3 í einkunn. Sama hvort þeir ná áfanga eða ekki. Í Svíþjóð útskrifast stúdentar þótt þeir nái ekki áföngum. Það segir bara á skírteini að þeir hafi ekki náð fullnægjandi árangri. Er það til eftirbreytni?

Pawel segir: „Finnskir nemendur eru í grunnskóla til 16 ára aldurs. Þeir fara síðan í þrjú ár í framhaldsskóla og hefja að jafnaði háskólanám við nítján ára aldur. Danskir nemendur eru í grunnskóla til 16 ára aldurs og fara svo í framhaldskóla. Þeir útskrifast úr framhaldsskóla 19 ára. Sama kerfi er við lýði í Noregi og Svíþjóð.“

Ef við skoðum annað viðmið, hversu margar vikur eða jafnvel klukkustundir eru nemar í skóla til stúdentsprófsins? Skólar í viðmiðunarlöndunum hafa allir lengra skólaár, frá tveimur upp í sjö vikum lengra. Skiptir það ekki máli? Segjum þrjár vikur sinnum 13 ár eða 39 vikur, þá er komið ríflega eitt skólaár í viðbót, árið sem þeim Pawel og ráðherra finnst ofaukið hér heima.

Enn ein tilvitnun í Pawel: „Sé litið til þeirra fordæma gæti hugsanlega verið skynsamlegt að fela þær breytingar í móðu ólíkra námsbrauta með valkvæðum hraðbrautum áður en kerfið er samrýmt að nýju með þeim afleiðingum að allir útskrifast ári fyrr.“

Munu allir útskrifast ári fyrr ef námið er stytt um eitt ár? Sókn í framhaldsskóla hefur aukist upp í u.þ.b. 98% af árgangi sem hlýtur að hafa í för með sér mismunandi getu til náms, mismunandi áhuga og námsframvindu.

Í minn skóla innritast árlega tugir nemenda sem hafa ekki náð viðmiðum til lágmarksárangurs grunnskólans. Þeir þurfa eitt til tvö ár í hægferðum og upprifjunaráföngum áður en þeir takast á við hefðbundið efni framhaldsskólans. Einnig innritast fjöldi nema sem eru með frábæran árangur úr grunnskóla og ráða léttilega við að ljúka stúdentsprófi á þremur árum og hafa gert það. Í lögum frá 2008 var skólum heimilað að skipuleggja námsbrautir til stúdentsprófs allt að átta önnum en nú vill ráðherra, og Pawel, búa til eina ríkisleið í anda Marteins Mosdal og steypa alla í sama mót. Raunveruleikinn er bara ekki þannig.

Ef á að gera eins og hinir þarf að taka allan pakkann, ekki bara tína til það sem kostar ekkert.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×