Innlent

Styrkja bágstadda með matargjöfum

Starri Freyr Jónsson skrifar
Veitingastaðurinn Dirty Burger & Ribs skorar á aðra veitingastaði að gefa fjölskyldumáltíð mánaðarlega.
Veitingastaðurinn Dirty Burger & Ribs skorar á aðra veitingastaði að gefa fjölskyldumáltíð mánaðarlega. Vísir/Ernir
Nýlega birtist í Fréttablaðinu viðtal við meðlimi hópsins Matargjafir sem stofnaður var á Facebook í sumar og hefur það markmið að gefa mat til bágstaddra. Einn þeirra sem las greinina og hreifst af dugnaði hópsins var Valþór Örn Sverrisson, rekstrarstjóri veitingastaðarins Dirty Burger & Ribs.

Hann vildi gjarnan leggja eitthvað af mörkum og tilkynnt í síðustu viku að veitingastaðurinn myndi gefa  eina fjölskyldumáltíð í hverjum mánuði. Um leið skorar hann á aðra veitingastaði að gera það sama eða jafnvel betur.

„Ef 10-20 veitingastaðir gefa eina fjölskyldumáltíð í mánuði breytir það heilmiklu fyrir hóp fólks sem hefur lítið milli handanna. Auk þess finnst öllum börnum og unglingum gaman að fara út að borða og þetta er ekki síst gert með þau í huga.“

Valþór hefur tilkynnt stjórn Matargjafa um gjöfina sem sér um að koma henni áleiðis til einnar fjölskyldu.

„Nú skorum við á fleiri veitingastaði og því skora ég hér með á vin okkar Tomma hjá Hamborgarabúllunni að gera það sama. Bakarí henda líka oft mat í lok dags. Það hlýtur að vera hægt að koma honum til hóps eins og Matargjafa sem kemur honum í hendur þeirra sem geta nýtt hann betur. Þessir aðilar geta haft samband við hópinn gegnum facebook, sent tölvupóst eða bara hringt.“

Ýmis fyrirtæki og verslanir styrkja Matargjafir mánaðarlega. Í fyrrnefndu viðtali hvatti stjórn Matargjafa önnur fyrirtæki að bætast í hópinn og gefa mat mánaðarlega. Áhugasöm fyrirtæki geta haft samband við hópinn gegnum netfangið matargjafir@gmail.com eða síma 697-5699.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×