Viðskipti innlent

Stýrivextir Seðlabankans óbreyttir

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. vísir/gva
Stýrivextir Seðlabanka Íslands haldast óbreyttir og verða því áfram 5,5 prósent. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Þar segir jafnframt að verðbólga sé enn undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans, sérstaklega ef litið er framhjá húsnæðislið vísitölu neysluverðs. Verðbólga hefur þar að auki aukist hægar en gert var ráð fyrir í síðustu verðbólguspá bankans. Kemur fram í tilkynningu að það stafi að nokkru leyti af hærra gengi krónu þó sveiflukenndir liðir eigi þar einnig hlut að máli.

„Verðbólguhorfur til lengri tíma litið hafa því ekki breyst umtalsvert þótt nærhorfur séu betri. Niðurstaða kjarasamninga og tiltölulega háar verðbólguvæntingar benda eftir sem áður til þess að verðbólga muni aukast á næstu misserum. Á móti kemur lækkun alþjóðlegs vöruverðs og tæplega 4% hækkun á gengi krónunnar frá síðustu vaxtaákvörðun þrátt fyrir mikil gjaldeyriskaup Seðlabankans.

Aukist verðbólga í framhaldi af kjarasamningum svipað og spár benda til mun peningastefnunefndin þurfa að hækka vexti frekar eigi verðbólgumarkmiðið að nást til lengri tíma litið. Hve mikið og hve hratt ræðst af framvindunni og því hvernig greiðist úr þeirri óvissu sem nú er til staðar. Sterkari króna og alþjóðleg verðlagsþróun hefur gefið svigrúm til að hækka vexti aðeins hægar en áður var talið nauðsynlegt en breytir ekki þörf fyrir aukið aðhald á næstu misserum. Vaxtaferillinn mun einnig ráðast af því hvort öðrum stjórntækjum verður beitt til þess að halda aftur af eftirspurnarþrýstingi á komandi misserum,“ segir í tilkynningu Seðlabankans.

Þá hefur peningastefnunefnd ákveðið að auka bindiskyldu úr 2 prósentum í 4 prósent frá og með 21. október en þá hefst næsta bindiskyldutímabil.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×