Erlent

Styðja ekki tjáningarfrelsisbrot Kúbverja

þórgnýr einar albertsson skrifar
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti um opnun sendiráða ríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti um opnun sendiráða ríkjanna. fréttablaðið/epa
„Seinna í sumar mun utanríkisráðherrann okkar, John Kerry, fara í opinbera heimsókn til Kúbu í þeim tilgangi að draga fána Bandaríkjanna að hún við sendiráð okkar í Havana á ný,“ sagði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, þegar hann tilkynnti í gær að Bandaríkjamenn og Kúbverjar hyggist opna á næstunni sendiráð í höfuðborgum landanna. Forsetinn ítrekaði þó að þetta þýddi ekki að Bandaríkin styddu við það sem hann kallaði tjáningarfrelsisbrot Kúbverja.

Ríkin höfðu í fyrra samið um að taka aftur upp formlegt stjórnmálasamband sem legið hafði niðri síðan 1961. Opnun sendiráðanna er stórt skref í því verkefni.

„Árangurinn sem hefur náðst í dag ber þess vitni að fortíðin þarf ekki að fangelsa okkur,“ sagði Obama.

Þjóðirnar tvær hafa frá árinu 1977 haldið úti útibúi í sendiráðum Sviss í höfuðborgum landanna tveggja sem hafa það að markmiði að gæta hagsmuna þeirra en ekki er um eiginleg sendiráð að ræða og hefur enginn opinber sendiherra verið í þeim útibúum.

Bandaríkjaforsetinn hitti Raul Castro, forseta Kúbu, í apríl síðastliðnum í Panama á fyrsta fundi forseta ríkjanna í hálfa öld. Í kjölfar fundarins fjarlægðu Bandaríkin Kúbu af lista sínum yfir lönd sem styðja hryðjuverk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×