Enski boltinn

Sturridge gæti verið frá í mánuð vegna meiðslanna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Daniel Sturridge hefur verið óheppinn með meiðsli.
Daniel Sturridge hefur verið óheppinn með meiðsli. vísir/getty
Daniel Sturridge, framherji Liverpool, er kominn aftur á sjúkralistann, en hann dró sig úr enska landsliðshópnum í gær vegna meiðsla á mjöðm.

Fram kemur á vef Sky Sports að Sturridge verði frá í mánuð vegna meiðslanna, en hann á að hafa rifið vöðva í mjöðm. Hann varð fyrir meiðslunum í tapinu gegn Manchester United á sunnudaginn.

Liverpool á eftir að staðfesta hversu alvarleg meiðslin eru, en ef satt reynist missir framherjinn af aprílmánuði og nokkrum mikilvægum leikjum á endasprettinum hjá Liverpol.

Hann missir að öllum líkindum af deildarleiknum gegn Arsenal um aðra helgi, seini leiknum gegn Blackburn í átta liða úrslitum bikarsins og mögulega undanúrslitaleiknum á Wembley á móti Aston Villa komist Liverpool það langt.

Sturridge hefur verið mikið meiddur á leiktíðinni, en hann er aðeins búinn að spila ellefu leiki í úrvalsdeildinni í vetur og skora fjögur mörk.

Verði framherjinn frá í heilan mánuð og eigi svo eftir að koma sér í leikform eitthvað framan af maí dældar það verulega Meistaradeildarvonir Liverpool.

Liðið er í fimmta sæti, fimm stigum á eftir Manchester United eftir tapið á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×