Enski boltinn

Sturridge ætlar sér byrjunarliðssæti hjá Liverpool

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Daniel Sturridge hefur lítið skorað á undanförnum árum
Daniel Sturridge hefur lítið skorað á undanförnum árum vísir/getty
Enski framherjinn Daniel Sturridge telur sig eiga framtíð hjá Liverpool þrátt fyrir að hafa aðeins komið við sögu í níu leikjum með liðinu á síðustu leiktíð.

Sturridge var lánaður til WBA í janúarglugganum og reyndist dvölin þar algjörlega misheppnuð. Sturridge spilaði aðeins sex leiki og skoraði ekki eitt mark fyrir WBA sem kolféll úr úrvalsdeildinni.

Í kjölfarið var talið að Sturridge ætti ekki framtíð fyrir sér í öflugri sóknarlínu Liverpool og hefur þessi 28 ára gamli sóknarmaður verið orðaður við Sevilla og Besiktas að undanförnu.

Hann hefur hins vegar komið við sögu í öllum þremur leikjum Liverpool á undirbúningstímabilinu til þessa og kveðst staðráðinn í að vinna sér sæti í liðinu.

„Ég sé framtíð mína hjá Liverpool, vonandi sem hluti af liðinu í hverri viku.“

„Undirbúningstímabilið er að ganga vel og fyrir mig snýst þetta um að halda haus og byggja ofan á það. Ég er spenntur fyrir komandi leiktíð og það er frábært að vera kominn aftur,“ segir Sturridge.

Liverpool hefur leik í ensku úrvalsdeildinni sunnudaginn 12.ágúst næstkomandi þegar West Ham kemur í heimsókn á Anfield.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×