Enski boltinn

Sturridge: Get ekki beðið eftir því að spila á ný

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daniel Sturridge, framherji Liverpool.
Daniel Sturridge, framherji Liverpool. Vísir/AFP
Daniel Sturridge, framherji Liverpool, gæti spilað langþráðan leik um helgina þegar Liverpool-liðið mætir West Ham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, mun ákveða það í dag hvort að Sturridge spili á morgun.

„Ég er bara að einbeita mér að því að æfa vel og sætti mig bara við það að leyfa starfsliðinu að ákveða það hvenær ég fæ aftur að vera með," sagði Daniel Sturridge við BBC.

Daniel Sturridge hefur ekki spilað með Liverpool síðan að hann meiddist á landsliðsæfingu í september. Síðan hefur hann meiðst bæði á kálfa sem og aftan í lærinu.

Daniel Sturridge átti að leiða Liverpool-sóknina á leiktíðinni eftir að Luis Suarez var seldur til Barcelona og það hefur því munað mikið um fjarveru hans. Rickie Lambert er markahæsti framherji félagsins með þrjú mörk, sex mörkum færra en fyrirliðinn Steven Gerrard.

„Ég hlakka til að fá aftur að vera með. Mér líður vel og get ekki beðið eftir því að spila á ný," sagði Daniel Sturridge sem hefur skorað 32 mörk í 56 leikjum í ensku úrvalsdeildinni síðan að hann kom til Liverpool.

 „Þetta hefur verið mjög pirrandi en lærdómsríkur tími. Þessi reynsla hefur hjálpað mér að læra nýja hluti. Þetta hefur verið gott fyrir andlega hluta leiks míns því ég hef náð að bæta hann," sagði Daniel Sturridge.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×