Erlent

Sturgeon frestar áætlunum um nýja þjóðaratkvæðagreiðslu

Atli Ísleifsson skrifar
Nicola Sturgeon er fyrsti ráðherra Skotlands og leiðtogi Skoska þjóðarflokksins.
Nicola Sturgeon er fyrsti ráðherra Skotlands og leiðtogi Skoska þjóðarflokksins. Vísir/AFP
Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, hefur hætt við undirbúning nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands.

Ástæðan er sögð vera slakur árangur Skoska þjóðarflokksins (SNP) í nýafstöðnum þingkosningum í byrjun mánaðar þar sem flokkurinn tapaði 21 þingsæti á breska þinginu.

Sturgeon sagði í dag að hún myndi ekki kynna nýja löggjöf til að greiða götu nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði á næstunni. Yrði það fyrst gert haustið 2018. Skoska heimastjórnin þarf þó samþykki bresku stjórnarinnar til að boða til atkvæðagreiðslu sem yrði lagalega bindandi.

Sturgeon segist nú ætla að leggja aukinn kraft í að tryggja bestu mögulegu niðurstöðuna fyrir Skotland í Brexit-viðræðum Bretlands og Evrópusambandsins sem nú eru hafnar.

Sturgeon hafði áður lýst yfir vilja að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram að hausti 2018 eða vori 2019.

55 prósent skoskra kjósenda greiddu atkvæði gegn því að lýsa yfir sjálfstæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×