Viðskipti innlent

Stundin tapaði 13 milljónum

Haraldur Guðmundsson skrifar
Stofnendur Stundarinnar fengu nýja hluthafa inn í fyrra.
Stofnendur Stundarinnar fengu nýja hluthafa inn í fyrra.
Útgáfufélagið Stundin ehf. var rekið með 12,9 milljóna króna tapi árið 2015. Samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins var eigið fé þess neikvætt um 936 þúsund krónur í lok fyrsta rekstrarárs fjölmiðilsins en það skuldaði þá 17 milljónir króna.

Í ársreikningnum segir að gert hafi verið ráð fyrir tíu til 25 milljóna króna taprekstri við uppbyggingu rekstrarins á árinu 2015. Hlutafé fjölmiðilsins hafi verið aukið frá áramótum 2015-2016 og sú aukning hafi gengið að hluta til í gegn í fyrra. Eigið féð hafi þá tímabundið verið neikvætt.

Tíu nýir hluthafar Útgáfufélagsins Stundarinnar ehf. keyptu á síðasta ári samtals 23,4 prósenta hlut í fjölmiðlinum fyrir ellefu milljónir króna. Píratinn Smári McCarthy, sjávarútvegsfyrirtækið Stormur Seafood og Fjelagið – Eignarhaldsfélag, sem er í eigu einkahlutafélags í Hong Kong, fóru þá inn í eigendahópinn en þar voru fyrir stofnendur fjölmiðilsins. 

Fréttin birtist fyrst í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×