Innlent

Stuðningur við ríkisstjórnarflokkanna dalað frá kosningum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bjarni Benediktsson, Óttar Proppé og Benedikt Jóhannesson undirrituðu stjórnarsáttmálann í Gerðarsafni.
Bjarni Benediktsson, Óttar Proppé og Benedikt Jóhannesson undirrituðu stjórnarsáttmálann í Gerðarsafni. vísir/ernir
Stuðningur við ríkisstjórnarflokkanna þrjá, Sjálfstæðisflokk, Bjarta framtíð og Viðreisn hefur minnkað frá kosningunum ef marka má nýja könnun MMR sem framkvæmd var 3. til 10. janúar.

Þann 10. janúar, sama dag og ný ríkisstjórn var kynnt, mældist fylgi flokkanna þriggja samanlagt 39,3 prósent, samkvæmt könnun MMR. Kjörfylgi flokkanna í kosningunum þann 29. október var 46,7 prósent.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi eða 26,1 prósent, um þremur prósentustigum minna en í kosningunum. Vinstri hreyfingin - grænt framboð bætir töluvert við sig sé miðað við kosningarnar í október en flokkurinn mælist nú með 24,3 prósent fylgi en flokkurinn hlaut 15,9 prósent fylgi í kosningunum.

Fylgi Viðreisnar dalar en miðað við könnun MMR er flokkurinn með 6,9 prósent fylgi miðað við 10,5 prósent fylgi í kosningunum í október.

Aðrir flokkar njóta svipaðs fylgis og í kosningunum. Samkvæmt könnun MMR eru Píratar með 14,6 prósent fylgi. Framsókn mælist með 10,9 prósent fylgi, Samfylking með 6,4 prósent fylgi og Björt framtíð með 6,3 prósent fylgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×