Fótbolti

Stuðningsmenn West Ham, vinsamlegast hættið að hringja í neyðarlínuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn West Ham eru sér þjóðflokkur.
Stuðningsmenn West Ham eru sér þjóðflokkur. Vísir/Getty
„Halló er þetta neyðarlínan,“ virðist hreinlega vera alltof algengt símtal hjá stuðningsmönnum enska úrvalsdeildarliðsins West Ham United þessa dagana.

Slæmt gengi West Ham manna hefur heldur betur aukið álagið á viðbragðsaðila í West Ham hverfinu í London því stuðningsmenn Hamranna stunda það að hringja í 999 og biðja um aðstoð fyrir liðið sitt.

West Ham  tapaði 2-0 fyrir Watford um helgina í fyrsta leik liðsins undir nýja knattspyrnustjóranum David Moyes og situr eins og er í fallsæti deildarinnar með aðeins 9 stig í 12 leikjum.

Lögreglan í Essex sá sig tilneydda til að setja inn færslu á Twitter vegna ónæðisins frá stuðningsmönnum West Ham. Þeir eiga í vandræðum með að sinna alvöru útköllum vegna þessa.



„Að hringja í 999 af því að West Ham hefur tapað enn einum leiknum og þú veist ekki hvað skal gera er ekki í boði. Með þessu ertu að eyða dýrmætum tíma okkar,“ segir í færslunni.

Það kom strax spurning um hvort að þetta væri eitthvað grín en lögreglan svaraði strax að þetta væri blákaldur veruleikinn, því miður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×