Fótbolti

Stuðningsmenn Rapid geta hjálpað til að rífa gamla völlinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Austurríska félagið Rapid Vienna hefur boðið stuðningsmönnum félagsins að hjálpa til að rífa Gerhard Hanappi leikvanginn og hafa skipulagt "Niðurrifspartý" sem um leið verður fjáröflun fyrir félagið.

Stuðningsmenn Rapid geta komið og hjálpað til að skrúfa sætin laus, meitla veggi og klippa í sundur marknetin til að taka með sér heim sem minjagrip.

Minjagripirnir verða ekki ókeypis. Hvert sæti mun sem dæmi kosta 19,77 evrur (3000 krónur íslenskar) en leikvangurinn var einmitt tekinn í notkun árið 1977. Það mun kosta 18,99 evrur að taka hluta af netinu með sér heim og fyrir fimm evrur (760 krónur) fá þeir að taka með sér torfu af sjálfum vellinum.

Gerhard Hanappi hefur verið heimavöllur Rapid Vín frá 1977 en hann tekur 18,500 manns. Leikvangurinn var skýrður eftir fótboltamanninum Gerhard Hanappi sem einnig hannaði völlinn. Fyrst hét hann reyndar Weststadion-leikvangurinn en var endurskírður eftir að Hanappi lést árið 1980.

Rapid Vín er að byggja nýjan 22 þúsund sæta leikvang sem verður tekinn í notkun árið 2016. Þangað til spilar Rapid Vín á Ernst Happel leikvanginum.

Gerhard Hanappi leikvangurinn.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×